Þóra Hallgrímsson, athafna- og viðskiptakona, er látin níræð að aldri. Hún lést á Landspítalanum þann 27. ágúst. Eiginmaður Þóru, Björgólfur Guðmundsson, fyrrverandi stjórnarformaður Landsbankans, birti tilkynningu um andlát hennar í Fréttablaðinu í dag.
Þóra og Björgólfur voru áberandi í íslensku menningar- og viðskiptalífi á árunum 2002 til 2008. Þóra er þá fyrirmynd að persónu í skáldsögu Ólafs Jóhanns Ólafssonar í skáldsögunni Sakleysingjarnir.
Þóra fæddist í Reykjavík árið 1930 en hún er dóttir Hallgríms Fr. Hallgrímssonar, fyrrum forstjóra Skeljungs og aðalræðismanns Kanada, og konu hans Margrétar Þorbjargar Thors, dóttur Thors Jensen athafnamanns og systur Ólafs Thors fyrrum forsætisráðherra.
Fyrr á þessu ári varð Þóra níræð en í tilefni þess tók vefmiðillinn Lifðu núna einlægt viðtal við hana. Þar segir hún meðal annars: „90 ára er ekkert sérstakt. Ég man eftir manni sem varð 105 ára og hann var farinn að fá bréf eins og börnin á leikskóla fá. Það er fyrst þá sem við getum farið að tala um gamalt fólk þegar kerfið getur ekki samþykkt aldurinn á manni. 90 er þess vegna ekki mikið.”
Þegar Þóra var beðin um að gefa fólki ráð eftir langa ævi sagði hún að hún vildi minna alla á að reyna af fremsta megni að njóta hvers tímabils því alltaf sé hægt að sjá ljósu hliðarnar. „Lífið býður okkur upp á svo mismunandi aðstæður á mismunandi tímum. Stundum hef ég hikað og hugsað með mér: „Ah, þetta er nú aðeins of mikið og hvað er nú ætlast til að ég læri af þessu? En þegar frá líður hefur yfirleitt komið í ljós að ég hef getað sagt við sjálfa mig: Já, það var sannarlega gott að ég upplifði þetta þótt það hafi verið erfitt á meðan á því stóð."