Flestir gera sér grein fyrir því að hreyfing er góð fyrir líkamlega heilsu. Hreyfing getur þó einnig haft mikil áhrif á andlega heilsu, enda eykst vellíðanin alla jafna þegar formið verður betra. Ein besta leiðin til að auka andlega vellíðan er að stunda svokallaða þolþjálfun.
Þolþjálfun er öll hreyfing sem gerir okkur móð, líkt og rösk ganga, hlaup, hjólreiðar, sund, dans og fjallganga. Slík hreyfing örvar drifkerfi líkamans og við það eykst framleiðsla á streituhormóninu adrenalíni og taugaboðefninu noradrenalíni. Við það eykst blóðþrýstingur, sem og blóðstreymi til útlima og húðar og hjartsláttur örvast. Það er því ekki að undra að ýmsir telji að slík þolþjálfun geti ýtt undir streitu og andlega vanlíðan. Svo er hins vegar ekki.
Samkvæmt vefnum heilsutorg.is er tvennt sem veldur því að þolþjálfun er góð bæði fyrir sál og líkama.
Í fyrsta lagi hefst flókið slökunar- og vellíðunarferli í heilanum til mótvægis við streituáhrifin eftir að áreynslan hefur staðið í ákveðinn tíma. Slökun og vellíðan er miðlað af mörgum hormónum og taugaboðefnum, til dæmis endorfíni, serótóníni og dópamíni. Í öðru lagi aðlagast líkaminn álaginu eftir því sem maður þjálfast með reglubundnum æfingum og áreynslu. Vel þjálfaður einstaklingur er því ólíklegri til að fá of háan blóðþrýsting við áreynslu, ólíkt einstaklingi sem hreyfir sig lítið sem ekkert. Regluleg hreyfing, lítil eða mikil, hefur því góð áhrif á blóðþrýsting, en þar að auki veldur þjálfunin því að blóðþrýstingur í hvíld verður lægri en þeim sem hreyfa sig ekkert.
Einstaklingur sem stundar þolþjálfun reglulega er því mun líklegri til að vera undir það búinn að mæta streitu og andlegu álagi. Sömuleiðis getur þolþjálfun haft jákvæð áhrif á þunglyndi; áreynsla af völdum þolþjálfunar linar kvíða og mildar depurð.