Rúmt ár er til kosninga og tíminn er fljótur að líða. Á komandi vetri þurfa flokkarnir að undirbúa kosningarnar því hásumarið er ekki heppilegur tími til þess. Halda þarf flokksþing og velja á framboðslistana með prófkjörum eða öðrum hætti.
Í gær birtust upplýsingar um skiptingu þingsæta milli flokka miðað við nýja skoðanakönnun Gallups.
Margt á eftir að gerast hér á þessu rúma ári fram að kosningum í september 2021. Veturinn verður ríkisstjórninni væntanlega mjög erfiður vegna atvinnuleysis og minnkaðra tekna fólks og fyrirtækja. Fjárlagagerð verður mjög vandasöm því tekjur ríkisins falla mikið en kostnaður vex frekar en hitt því ekkert er gert til að sporna við útþenslu ríkisbáknsins.
Vinstri græn hafa bara eitt svar: Hækka skatta á atvinnulífið, borgarastéttina og þá efnaðri. Þeir vilja endurreisa auðlegðarskatta, stórhækka erfðafjárskatt, koma með eignarskatt að nýju, hækka tekjuskatt á fólk sem er með eina milljón eða meira á mánuði og innleiða hátekjuskatt, allt að 60%, á hina hæst launuðu sem hafa tvær milljónir eða meira í mánaðartekjur. Þeir munu einnig vilja hækka virðisaukaskatt. Vinstri grænir munu einnig flytja tillögur um margháttaðar hækkanir skatta og gjalda á atvinnulífið.
Indriði Þorláksson er þegar farinn að birta hótanir Vinstri grænna í Stundinni. Hann var aðalhöfundur skattpíningarstefnu Steingríms J. Sigfússonar í vinstri stjórninni illræmdu sem sat 2009 til 2013.
Sjálfstæðisflokkurinn verður að berjast harkalega gegn áformum VG í núverandi ríkisstjórn ef hann ætlar ekki að gjalda afhroð í kosningunum 2021.
Lausnin hlýtur að felast í því að skuldsetja ríkissjóð á tímum lægstu vaxta og dreifa áhrifum áfallsins vegna veiruvandans á næstu tuttugu ár. Fyrir því verða sjálfstæðismenn að berjast í ríkisstjórninni á næstunni og standa í lappir gagnvart skattaæði Vinstri grænna.
Komi til þess að úrslit kosninganna 2021 verði í líkingu við nýjustu könnun Gallups, þá væru mestar líkur á því að Bjarni Benediktsson velji að mynda stjórn frá hægri og inn á miðjuna frekar en stjórn frá hægri og yfir til sósíalista á vinstri kantinum. Flokksmenn Sjálfstæðisflokksins hafa fengið nóg af þjónkun við Vinstri græna!
Svona gæti mögulegur ráðherralisti nýrrar ríkisstjórnar t.d. litið út:
Frá Sjálfstæðisflokki: Bjarni Benediktsson forsætisráðherra, Guðlaugur Þór Þórðarson fjármálaráðherra, Þórdís Kolbrún Gylfadóttir umhverfisráðherra, Jón Gunnarsson samgönguráðherra og Unnur Brá Konráðsdóttir forseti Alþingis.
Þá er gert ráð fyrir að hún verði kjörin að nýju þingmaður í Suðurlandskjördæmi.
Frá Samfylkingu: Logi Einarsson sjávarútvegs-og landbúnaðarráðherra, Helga Vala Helgadóttir dómsmálaráðherra, Ágúst Ólafur Ágústsson menntamálaráðherra og einhver af nýjum þingmönnum flokksins félagsmálaráðherra. Allnokkur endurnýjun verður væntanlega í þingflokknum.
Frá Viðreisn: Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir utanríkisráðherra, Daði Már Kristófersson ferðamála-og iðnaðarráðherra og Hanna Katrín Friðriksson heilbrigðisráðherra.
Hér væri óneitanlega um öflugan hóp að ræða sem hefði 34 þingmenn á bak við sig.
En rúmt ár á óvissutímum er langur tími í stjórnmálum. Nýjir flokkar gætu komið fram og náð fótfestu, einhverjir munu týna tölunni og hver veit nema til sameininga flokka komi.
Eina sem skiptir máli í þessu sambandi eru úrslit kosninganna í lok september 2021.