Þjófarnir á Íslandi þessi dægrin eru útsmognir og venja til dæmis komur sínar inn á heimili þegar verið er að auglýsa húsgögn til sölu, eða sjálft heimilið, en þá eru þeir að skoða sig um og athuga hvaða vermæti leynast innan dyra.
Þetta kemur fram í fjölbreyttum heimilisþætti kvöldsins, en þar fær Sigmundur Ernir meðal annars til sín sérfræðinga frá Securitas til að ráðleggja fólki hvernig það á að ganga frá heimilum sínum áður en það heldur burt úr bænum í sumarfríið.
Meðal annarra gesta er Nanna Rögnvaldardóttir sem mætir með matarráðin sín, Úlfar kokkur Eysteinsson kennir fólki trixin við að grilla fisk, Ólafur Kr. Guðmundsson frá FÍB fer yfir helstu ráðin við að aka úti á landi í sumarfríinu og þá heimsækir Díana Íris Guðmundsdóttir fagmennina hjá Byko og lærir allt um pallasmíði.
Heimilið er á dagskrá Hringbrautar klukkan 20:00 í kvöld.