Á ársfundi Landsvirkjunar í dag áréttaði Bjarni Benediktsson fjármálaráðherra fyrirætlanir sínar um að koma á fót svonefndum “þjóðarsjóði” sem er auðlindasjóður sem á að taka til sín arðinn af Landsvirkjun og fleiri fyrirtækjum í eigu ríkisins.
Bjarni hefur fjallað um þessa hugmynd áður og reynt að slá um sig með þessu við hátíðleg tækifæri. Hann er greinilega orðinn spenntur fyrir því að koma upp sjóði sem stjórnmálamenn geta valsað með og stjórnað gegnum útsendara sína sem verða handvaldir í stjórn svona sjóðs. Bjarna langar í sjóðasukk.
En hefur hann alltaf verið áhugasamur um að ríkið stofni auðlindasjóð? Nei, svo er alls ekki:
“Auðlindasjóður er nokkuð sem ég hlýt að setja fyrirvara við vegna þess að við erum með sjálfbærar auðlindir.”
Hver skyldi hafa sagt þetta? Jú, einmitt Bjarni Benediktsson þegar hann var í stjórnarandstöðu. En nú hefur hann snúist um 180 gráður í þessu máli og talar um auðlindasjóð við hátíðleg tækifæri eins og í dag.
Þjóðarsjóður yrði ekkert annað en sjóðasukk. Það sem ætlunin er að gera er ekki annað en það að taka fjármuni sem hafa runnið í ríkissjóð til sameiginlegra þarfa þjóðarinnar og verið ráðstafað í samræmi við fjárlög og setja þá í sjóð til að ráðherra geti útdeilt úr sjóðnum eftir geðþótta sínum. Það verða engir nýjir fjármunir til. Engin ný tekjuöflun. Einungis er verið að taka vissar tekjur sem renna í ríkiskassann og setja þær í sjóð sem útvaldir munu stýra og útdeila úr.
Á árunum kringum 1990 kölluðu sjálfstæðismenn svona lagað sjóðasukk. Þeir náðu völdum í landinu eftir Alþingiskosningarnar 1991 m.a. út á loforð um að afnema sjóðasukk vinstri stjórnar Steingríms Hermannssonar. Og flokkurinn stóð við loforin. Hann lagði niður nokkra opinbera sjóði vinstri stjórnarinnar og hafði uppi mörg stór orð um spillingu og sjóðasukk. Forystumenn flokksins voru mjög stoltir af því en á þeim árum átti Sjálfstæðisflokkurinn öfluga forystumenn á borð við Davíð Oddsson, Þorstein Pálsson, Friðrik Sophusson, Matthías Bjarnason, Ólaf G. Einarsson, Einar Odd Kristjánsson, Árna Mathiesen og Eyjólf Konráð Jónsson. Þeir höfnuðu sjóðasukki.
En nú vill formaður Sjálfstæðisflokksins innleiða sjóðasukk. Ólíkt hafast menn að.
Rtá.