Hátíð að hlusta á pírata

Jæja, þá er þessum þingvetri lokið. Vinir mínir í Pírötum hafa unnið að því hörðum höndum að auka virðingu þingsins. Árangurinn kannski ekki mikill en Birni Leví tókst þó að koma í samstæðum sokkum í ræðustól síðasta þingdaginn. Sama þingmanni tókst að halda langa ræðu um fjármálastefnuna og fjármálaáætlun án þess að ræða efnið eða pólitík yfirhöfuð, sem er talsvert afrek. Við þurfum fleiri formalista og tæknikrata á þingið. Ég skynjaði í gegnum myndavélarnar samúð áhorfenda þingrásarinnar með forsetum þingsins, sem geta ekki bjargað sér á flótta.

Samt var hrein hátíð að hlusta á Pírata í þeirri umræðu miðað við þingmenn Samfylkingarinnar, sem reyndu hvað þeir gátu að rugla almenning með því að halda fram að minni útgjaldaaukning á næstu árum en vonast var til, vegna breyttra forsenda í þjóðarbúskapnum, væri blóðugur niðurskurður. Þetta skuespil Samfylkingarinnar hafði þann tilgang að réttlæta þeirra stærsta stefnumál, sem er að hækka skatta.

En það voru ekki tóm leiðindi. Nokkuð góð samstaða náðist um að fella stærsta þingmál Viðreisnar um mannanöfn. Margir, meðal annars í mínum flokki, halda að það mál sé stórkostlegt frelsismál. Mannanöfn eru hluti af íslenskri tungu og ekki þarf að deila um mikilvægi hennar fyrir þjóðina. Menn mega ekki rugla saman frelsi og stjórnleysi.