Þingmennirnir Páll Magnússon og Gunnar Bragi Sveinsson birtast nú í flestum fjölmiðlum með kröfur umbjóðenda sinna, sægreifanna, og segja að ríkið eigi að leysa vanda sjávarútvegsins sem virðist ekki ráða við það verkefni að ná samningum við sjómenn.
Alveg er það óþolandi að enn skuli finnast atvinnurekendur á Íslandi sem ráða ekki við verkefni sín og ætlast þá til að ríkissjóður komi til skjalanna og dragi þá að landi. Það er á ábyrgð sjávarútvegsfyrirtækja og sjómanna að semja sín á milli um kaup og kjör, alveg eins og það er á ábyrgð annarra atvinnurekenda og launþega í öðrum atvinnugreinum að semja sín á milli.
Gunnar Bragi hafði hátt um að ríkisstjórnin ætti að láta “gera úttekt” á slæmum áhrifum verkfalls sjómanna á þjóðarhag. Eins og það leysi einhvern vanda að fá á blaði í skýrsluformi upptalningu á því sem allir vita. Sjómannaverkfall veldur miklum skaða. Markaðir fyrir sjávarafurði spillast, fiskverkafólk er rekið heim og fer á atvinnuleysisbætur úr ríkissjóði, sjómenn eru tekjulausir í verkfallinu – en fiskurinn í sjónum fer ekkert og verður veiddur þegar verkfallinu lýkur. Kvóti útgerðarmannana er áfram á sínum stað.
Ef það væri brýnt að láta gera skýrslu, þá hefði Gunnar Bragi átt að vera búinn að setja það verkefni af stað en hann var sjávarútvegsráðherra fyrstu 4 vikur verkfallsins. Hann gerði ekkert í því en gerir nú hróp að ríkisstjórninni fyrir að aðhafast ekki. Hræsni Gunnars Braga er augljós.
Þessir og aðrir útsendarar sægreifanna krefjast afskipta ríkisvaldsins. Bæði Bjarni Benediktsson, forsætisráðherra, og Þorgerðru Katrín Gunnarsdóttir, sjávarútvegsráðherra, hafa lýst því ítrekað yfir að ekki standi til að setja lög á verkfallið.
Um helgina töluðu fulltrúar sjávarútvegs og sjómanna afar skýrt um það að hvorugur þeirra vildi afskipti löggjafans. Heiðrún Lind Marteinsdóttir hjá Samtökum sjávarútvegs sagði að þar á bæ vildu menn ekki sjá ríkisafskipti eða pólitísk inngrip í málið. Stjórnmálamenn væru ekki að hjálpa til með yfirlýsingum sínum. Formaður sjómanna sagði að reynsla þeirra af lagasetningum væri afa slæm gegnum tíðina og þeir vildu ekki sjá slík inngrip. Þau voru sammála um að þeirra væri að leysa málið.
Dagfara finnst sorglegt að sjá þingmenn tiltekinna útgerðarfélaga afhjúpa sig með þeim hætti sem Páll Magnússon og Gunnar Bragi gera. Þeir verða ekki trúverðugir í umræðum í þinginu eftir þetta. Þeir verða að lyfta sér upp úr því að sinna erindum með þessum hætti þar sem þeir leggja inn pantanir frá umbjóðendum sínum til ríkisstjórnarinnar.
Það er svo annað mál að erfitt er að skilja hvers vegna Bryndís Hlöversdóttir, ríkissáttasemjari, leggur ekki fram miðlunartillögu. Hún verður að sýna að embætti sáttasemjara hafi eitthvað að segja.