Þetta sagði katrín árið 2015: sjáðu listann yfir klúðrið og svikin - myndband

Fáir áttu von á því að mynduð yrði ríkisstjórn sem myndi innihalda Vinstri græna og Sjálfstæðisflokkinn. Formenn flokkanna höfðu einnig sagt að málefnalega væru þeir fjarri hvor öðrum eins og hugsast getur. Þetta sagði Katrín Jakobsdóttir fyrir kosningar um Sjálfstæðisflokkinn. (Myndband er að finna neðst.)

 „Þetta er flokkurinn sem leiddi hrunstjórnina, sat í Panamastjórninni“

Þá sagði Svandís Svavarsdóttir vera óhugsandi að fara í samstarf með Sjálfstæðisflokknum og þeir sem héldu slíku fram væru að taka þátt í herferð til að koma höggi á Vg. Svandís sagði:

„Vera kann að samstarf af þessu tagi hafi einhvern tíma verið á dagskrá hér fyrr á árum. Hins vegar er það óhugsandi við núverandi kringumstæður eftir aðdraganda kosninganna, uppljóstranirnar úr Panama-skjölunum og viðbrögð forystumanna stjórnarflokkanna. Þetta hljóta allir að sjá.“

Nú situr Svandís í ríkisstjórn! Hún er ráðherra. Og áfram höldum við að horfa uppá hvert klúðrið á fætur öðru hjá Sjálfstæðisflokknum og núna líka Vinstri grænum.

Kolbeinn Óttarsson Proppé, annar þingmaður Vg deildi færslu Svandísar og sagði að þar kæmi allt fram um þessar skrýtnu pælingar. Hann var sem sagt sammála. En Vinstri græn fóru í ríkisstjórn með flokki þar sem formaðurinn hafði ekki greint öðrum forystumönnum í þáverandi ríkisstjórn frá því að faðir hans hann hafði skrifað upp á uppreist æru fyrir barnaníðinginn Hjalta Sigurjónsson. Margir kusu VG því þeir töldu útilokað að flokkurinn myndi hjálpa Sjálfstæðisflokknum til valda. Hitinn frá kjötkötlunum mun því aðeins vara í mesta lagi í tvö ár í viðbót. Það hefur enginn áhuga á að gefa svikurum atkvæði sitt. Eftir tvö ár mun VG hrynja.  

Síðan má ekki gleyma að sterk tengsl voru á milli Sjálfstæðisflokksins og Roberts Downey. Þá er ótalið lögbann á Stundina, brotthvarf kvenna af þingi, ummæli Ásmundar Friðrikssonar um hælisleitendur og svo allur hans akstur út um allar koppagrundir. Sjálfstæðisflokkurinn daðraði við rasisma og kvenfyrirlitning kom víða fram líkt og Grímur Atlason benti á. Katrín sagði einnig fyrir kosningar um Sjálfstæðisflokkinn:

„Staðreyndin er sú að pólitískur stöðugleiki á Íslandi nútímans næst ekki með gamaldags frekjupólitík; pólitík þar sem „stórir og sterkir flokkar“ berja öll mál í gegn með offorsi og yfirgangi án þess að hlusta á gagnrýni eða aðrar raddir og helst með minnsta mögulega meirihluta.

Þetta er vond og úrelt hugmynd og auðvitað springur slík ríkisstjórn!“

En hvað segir Katrín í dag. Jú, Bjarni Benediktsson er einn besti samstarfsmaður sem hún hefur átt. Katrín mætti svo í 90 ára afmæli Sjálfstæðisflokksins, mærði Bjarna og gaf honum hríslu.

Síðan þá hefur fylgið hrunið af Vinstri grænum. Katrín hefur einnig klúðrað Geirfinnsmálinu með því að kynna sér það ekki. Það var ömurleg framganga sem hún skammast sín fyrir og grætur yfir.

Heimsókn varaforseta Bandaríkjanna var í meira lagi vandræðaleg.

Jú jú, svo er Ísland komið á válista með vanþróuðum ríkjum vegna skorts á reglum varðandi peningaþvætti.

Síðan má ekki gleyma ruglinu í dómsmálaráðuneytinu þar sem Sigríður Andersen sagði af sér. Þar mun ríkið þurfa að greiða háar skaðabætur. Réttara sagt skattgreiðendur.

Einu sinni var Katrín vonarstjarna íslenskra stjórnmála og líkt og segir á Miðjunni: „Fólk saknar þeirrar Katrínar sem var en vill ekkert með þá Katrínu sem er.“

Þá hafa tvö myndskeið af ummælum Katrínar áður en hún náði að komast í ríkisstjórn vakið athygli. Annað þeirra er frá 2016 og snýr að flóttafólki og hælisleitendum. Myndskeiðið vakti nokkra athygli á samfélagsmiðlum vegna Sarwary og Safari fjölskyldnanna sem til stóð að vísa úr landi. Voru stjórnvöld harðlega gagnrýnd vegna málsins. Illugi Jökulsson deildi myndskeiðinu og spurði:

„Er þetta sama manneskjan?“

 

Einnig vakti annað myndskeið frá árinu 2015 enn meiri athygli. Í því myndskeiði sagði Katrín:

„Laun verða að vera þannig að hægt sé að lifa af þeim.“ Þarna var í tilfinningaþrunginni ræðu árið 2015 í umræðum um störf Alþingis þar sem rætt var um kröfu Starfsgreinasambandsins um að taxtar yrðu ekki lægri en 300 þúsund á mánuði. Katrín sagði:

„Mikil verðmæti og miklir fjármunir eru til í samfélaginu en þeim er hins vegar gríðarlega ójafnt skipt. Því er ekki óeðlilegt að verkalýðshreyfingin setji fram kröfur um að fólk geti lifað af launum sínum.“

Þá benti Katrín á að stjórnvöld hefðu sjálf gefið út viðmið um hvaða laun væru nægilega há til að lifa af þeim.

„Ég fór að gamni mínu inn á reiknivél velferðarráðuneytisins þar sem birt eru neysluviðmið fyrir íslenska fjölskyldu og setti þar inn fjölskyldu eins og mína, þrjú börn og tvo fullorðna. Þegar skoðuð eru heildarútgjöld án húsnæðiskostnaðar, sem eru dæmigerð viðmið fyrir heimili, eru útgjöldin 641 þúsund krónur á mánuði.“

Katrín var í stjórnarandstöðu á þessum tíma og tveimur árum síðar, þegar hún var enn í sama hlutverki, var ræða hennar eftir stefnuræðu Bjarna Benediktssonar, þáverandi forsætisráðherra, með svipuðum hætti. Nú þegar Katrín er sjálf orðin forsætisráðherra er komið annað hljóð í strokkinn.

Katrín sjálf er með rúmar tvær milljónir í laun á mánuði. Katrín sagði í ræðu sinni árið 2015:

„Stöðugleiki verður ekki eingöngu mældur í hagstærðum, hann verður líka að mæla í því að fólk geti lifað af launum sínum.“

Nú er það staðreynd að Katrín Jakobsdóttir leiðir ríkisstjórn lands þar sem fólk lifir undir fátækramörkum, líkt og Katrín vitnaði svo skörulega til fyrir þremur árum.