„Þetta getur kannski varað í vikur, jafnvel mánuði í verstu tilfellum“

„Þetta getur kannski varað í vikur, jafnvel mánuði í verstu tilfellum,“ sagði Þorvaldur Þórðarson eldfjallafræðingur í Kastljósi á mánudagskvöld þegar hann var spurður hversu lengi hugsanlegt eldgos á Reykjanesi gæti staðið yfir.

Eins og greint var frá í dag mældist óróakviða suður af Keili sem er sterkt vísbending um að eldgos sé í vændum. Þegar þetta er skrifað hefur það ekki verið staðfest en boðað hefur verið til blaðamannafundar klukkan 16.

Þorvaldur og Magnús Tumi Guðmundsson jarðeðlisfræðingar veltu upp ýmsum möguleikum í Kastljósi á mánudagskvöld. Þannig töldu þeir að gos nærri Keili yrði ekki stórt og þá myndi það ekki fara hratt yfir. Þá væri alls óvíst hversu lengi gos geti varað en Þorvaldur telur að það geti varað í vikur en í versta falli einhverja mánuði.

Í uppfærðri frétt Veðurstofunnar kemur fram að eldgos muni að öllum líkindum ekki ógna byggð.

Hefur Veðurstofan þegar útbúið sviðsmyndir um umfang hugsanlegs hraunrennslis ef til eldgoss kemur.

„Horft er á þá tvo staði sem mælingar gefa til kynna að líklegast sé að kvika brjóti sér leið upp á yfirborðið. Líkön gefa til kynna að um væri að ræða meðalstórt gos um 0.3 km3, sem er sambærilegt að umfangi og Arnarseturshraun á Reykjanesskaga. Slíkt gos myndi að öllum líkindum ekki ógna byggð. Til samanburðar er rúmmál gossins í Holuhrauni áætlað um 1.2-1.6 km3.“

RÚV hafði eftir Kristínu Jónsdóttur, hópstjóra náttúruvárvöktunar á Veðurstofu Íslands, áðan að óróapúlsinn væri að aukast. Sjálft hraunflæðið ætti ekki að hafa nein áhrif á vegasamgöngur eða byggð. Þó sé hætta á fleiri skjálftum, gosmengun eða gasmengun sem geti verið öflug við upptökin. Komi til eldgoss ættu íbúar á Reykjanesi að halda sig heima.