Sex sumarhús sem kosta yfir 50 milljónir eru til sölu á fasteignavef Morgunblaðsins. Fjölmörg glæsileg sumarhús eru á landinu og nú þegar sumarhúsatímabilið er að fara á fullt er ekki úr vegi að skoða dýrustu sumarhúsin sem eru til sölu.
Langdýrasta húsið er í Öndverðarnesi í Þrastaskógi í Grímsnes- og Grafningshreppi. Umræddur bústaður er 170 fermetrar og kostar 89,9 milljónir króna. Þar er gistirými fyrir býsna marga enda fjögur svefnherbergi í húsinu auk rishæðar sem hægt er að nota sem setustofu.
Hér má sjá yfirlit yfir dýrustu sumarhúsin:
Öndverðarnes - Kambsbraut 16
Verð: 89,9 milljónir
Stærð: 169,7 fermetrar
Þetta er dýrasti bústaðurinn sem er til sölu á Íslandi í dag. Hann er á vinsælum sumarhúsastað í Þrastaskógi, í næsta nágrenni við golfvöll og sundlaug. Tvö baðherbergi eru í húsinu, gufubað og að sjálfsögðu heitur pottur. Bústaðurinn var byggður árið 2007 og eru gólfsíðir gluggar í stofu.
Laugarvatn – Útey 1
Verð: 62,9 milljónir
Stærð: 91,9 fermetrar
Þetta sumarhús er á fallegum og vinsælum stað á Laugarvatni í landi úteyjar. Fallegt útsýni er frá húsinu og þeir sem til þekkja vita að veðursæld er mikil á þessu svæði. Auk þess fylgir húsinu 15 fermetra nýtt gestahús sem stendur á lóðinni. Þá er yfirbyggður heitur pottur og útisturta við bústaðinn. Eignin var byggð árið 1997 og eru þrjú svefnherbergi í húsinu auk gestahússins.
Hvolsvöllur – Glimbratún
Verð: 56 milljónir
Stærð: 134,3 fermetrar
Hér er á ferðinni glæsilegt og viðhaldslétt sumarhús í landi Hellishóla í Fljótshlíð. Húsið er byggt árið 2019 og fylgir innbúið í húsinu með í kaupunum. Húsið er nýtískulegt og til marks um það er hægt að fjarstýra hita og lýsingu hússins með appi í snjallsíma og draga niður hlera fyrir alla glugga að utan á sama hátt. Þá er gólfhiti í húsinu og marmaraflísar á gólfum. Hjónaherbergið er stórt og með sér baðherbergi. Þrjú góð svefnherbergi eru í húsinu.
Húsavík – Höfðabyggð
Verð: 55 milljónir
Stærð: 100,6 fermetrar
Þetta er í raun heilsárshús sem stendur á stórri leigulóð í Lundsskógi í Fnjóskadal. Um er að ræða steypt hús sem var byggt á árunum 2009 og 2010. Þrjú svefnherbergi eru í húsinu með innfelldri halogen-lýsingu. Úr hjónaherberginu er svo útgengt á verönd. Þá eru rafdrifin gluggatjöld í húsinu og heitur pottur á verönd. Þá er byggingarleyfi fyrir 13,5 fermetra viðbyggingu og 49 fermetra bílskúr.
Verð: 52,9 milljónir
Stærð: 114,6 fermetrar
Hér er um að ræða heilsárshús á einni hæð sem var byggt árið 2011. Innréttingar í húsinu eru sérsmíðaðar. Tvö baðherbergi eru í húsinu og þrjú svefnherbergi. Fyrir utan húsið er frágengið plan og um 150 fermetra sólpallur með heitum potti frá Trefjum auk 8 fermetra geymsluskúrs. Lóðin er 7000 fermetrar og er eignarlóð. Húsið stendur á fallegum stað og er til að mynda stórbrotið útsýni á Heklu. Þá er stutt í verslun.
Verð: 52,5 milljónir
Stærð: 132,8 fermetrar
Þetta sumarhús stendur í landi Miðengis í Grímsnes- og Grafningshreppi og var byggt árið 2006. Húsið er á tveimur hæðum en efri hæðin er 18,3 fermetrar og sú neðri 114,5 fermetrar. Húsið stendur á 7.600 fermetra kjarri vöxnu eignarlandi með glæsilegu útsýni. Stór sólpallur og heitur pottur er við húsið. Stutt er til þekktra staða á Suðurlandi, Skálholts, Þingvalla, Laugarvatns, Geysis, Gullfoss og Kersins. Þá er stutt er í veiði, sundlaug, golfvöll, íþróttavöll og fallegar gönguleiðir. Selfoss er aðeins í 16 kílómetra fjarlægð og frá Reykjavík eru aðeins um 70 kílómetrar sé ekið um Hellisheiði.