Benedikt Jóhannesson, einn af stofnendum Viðreisnar rifjar upp ræðu Lilju Rafneyjar Magnúsardóttur, þingmanns Vg, frá árinu 2013. Þá sagði Lilja Rafney í ræðu á Alþingi að hún hefði hitt góða vinkonu frá Flateyri á Austurvelli. Orðrétt sagði Lilja Rafney, sem þá var í stjórnarandstöðu:
„Ég sagði henni að við værum að ræða lækkun veiðigjalda. Þá sagði hún og sló sér á lær: Jæja, eiga þeir nú ekki salt í grautinn, blessaðir útgerðarmennirnir, það er kannski ekkert nýtt. En það er í lagi að þeir greiði af sínum auði þegar við sem erum ekki eins auðug þurfum að standa skil á okkar af okkar lágu tekjum.“
Fimm árum síðar var vitnað í Lilju Rafney á Vísi og var fyrirsögnin svohljóðandi:
„Lækkun veiðigjalda þolir enga bið að sögn formanns atvinnuveganefndar“.
Hver var formaður atvinnuveganefndar. Jú, engin önnur en Lilja Rafney en líkt og segir á Miðjunni:
„ ... sem nú hafði færst í nýjan stól og sá vel að blessaðir útgerðarmennirnir áttu ekki lengur fyrir salti í grautinn.“
Þarna er enn einn þingmaður Vinstri grænna sem gerir sig marklausan um alla framtíð og fórnar öllum prinsippum um leið og þingmaðurinn, Lilja Rafney, finnur ylinn og ilminn af kjötkötlunum.