Þetta er hrikalegur heimur

Ögmundur Jónasson, fyrrverandi heilbrigðisráðherra,  segist ekki í vafa um að barátta Fanneyjar Bjarkar Ásbjörnsdóttur muni skila árangri. Lifrarbólgumál hennar sé þó afar flókið kerfislega. Hann efast um að hægt sé að kenna núverandi heilbrigðisráðherra sérstaklega um seinagang eða tregðu kerfisins til að leysa mál hennar.

„Ég vil ekki ganga svo langt að staðhæfa að þetta mál sé dæmi um nýjan veruleika í heilbrigðiskerfinu en sú hætta er vissulega fyrir hendi.  Mikill niðurskurður í kerfinu og aukin útgjöld beint upp úr vösum sjúklinga er ávísun á slíka vegferð. Barátta Fanneyjar Bjarkar Ásbjörnsdóttur hefur nú þegar skilað verulegum árangri og skapað umræðu um að vinda verður ofan af kerfinu. Fleiri hafa stigið fram og fært siðferðisleg og fjárhagsleg rök fyrir því að hyggilegt sé að verja meiri fjármunum til kaupa á lyfjum sem sannarlega skila árangri en þá þurfum við að verja meira fé til málaflokksins. Heilbrigðisráðherra  segist af vilja gerður og þá þarf hann að krefjast meiri fjármuna. Við munum standa við bakið á honum í því,“ segir Ögmundur, þingmaður VG og heilbrigðisráðherra í tíð ríkisstjórnar Jóhönnu Sigurðardóttur.

Stéttskipt þjónusta blasi við

Ögmundur segir engan vafa leika á því að ef minni áhersla verði lögð á að heilbrigðiskerfið sé fjármagnað með sameiginlegum sjóðum í gegnum skattakerfið, geti bara eitt gerst; að veikir greiði kostnaðinn í auknum mæli úr eigin vasa. „Það hefur ágerst síðustu áratugi. Nú er svo komið að fimmtungur af greiðslum rennur beint úr vösum sjúklinga sjálfra. Ef við vindum ekki ofan af þessu blasir hér ekkert annað við en stéttaskipt heilbrigðisþjónusta.“

Ögmundur vísar til rannsókna sem bæði Krabbameinsfélag Íslands og Félagsvísindastofnun HÍ hafi unnið, að sjúklingar greiði nú orðið 20% sjálfir af kostnaði við heilbrigðisþjónustu. Þeir sem hafi unnið þessar rannsóknir haldi sjálfir fram á grunni vísindalegra gagna að tekjulítið fólk verði æ tregara að leita sér lækninga vegna þess að fólk hafi ekki efni á því. „Þetta er hrikalegur heimur.“

Ekki sök Kristjáns Þórs

Annað segir fyrrverandi heilbrigðisráðherra að þurfi að ræða, þátt lyfjaframleiðenda sem okri í verðlagningu. Nú sé til dæmis mál málanna í forsetakosningabaráttunni í Bandaríkjunum að lækka hlut einstaklinga í lyfjaverði. Þakið sem Hillary Clinton hafi lagt til sé þó tíu sinnum hærra en hér á landi.

En hver er afstaða Ögmundar til þeirra ásakana sem komið hfa fram um að Kristján Þór Júlíusson heilbrigðisráðherra hafi dregið lappirnar í máli Fanneyjar Bjarkar? Hefði Ögmundur sjálfur brugðist öðruvísi við ef hann væri enn ráðherra?

„Mér finnst ásakanir á hendur heilbrigðisráðherra vera ósanngjarnar. Við eigum ekki að smíða okkur kerfi sem er háð duttlungum hverju sinni, það á að vera til kerfi sem er hafið yfir það,“ svarar Ögmundur.

Hann bætir við: „Það sem vantar núna er aukið fjármagn en það sem greinir okkur að frá þeim sem nú stýra stjórnarráðinu er að ég vil meiri samneyslu og skatta. Þar með talið er fjármögnun á lyfjum en mér finnst ósanngjarnt að beina ásökunum sérstaklega að heilbrigðisráðherra sem einstaklingi. Hann er af vilja gerður en er að burðast með sína pólitísku sannfæringu sem er varasöm, að draga úr skattheimtu, en aukin skattheimta yrði heilbrigðiskerfinu til góðs.“

Ögmundur svarar aðspurður að þrátt fyrir pólitíska ábyrgð ríkisstjórnarflokkanna á forgangsröðun fjármuna sé hann ekki viss að hann hefði sjálfur brugðist beint við með öðrum hætti en Kristján Þór Júlíusson hefur gert vegna máls Fanneyjar Bjarkar.

Á ábyrgð ríkisins

Fanney Björk bíður þess nú að mál hennar fái framgang, meðal annars í Hæstarétti eftir að Héraðsdómur Reykjavíkur sýknaði ríkið af kröfum hennar og vísaði öðrum frá dómi. Málið snýst um að ef Fanney fengi aðgang að nýju lyfi sem kostar um 10 milljónir króna eru 95% líkur á að lífshættulegur sjúkdómur sem hún gengur með yrði að fullu læknaður á þremur mánuðum. Sjálf hefur Fanney kallað dóm Héraðsdóms Reykjavíkur dauðadóm yfir sér. Hún telur fordóma vinna gegn því að mál hennar fái farsælan endi eftir 30 ára þrautagöngu. Segja má að ríkið hafi sýkt Fanneyju af lifrarbólguveirunni þegar hún fékk árið 1983 blóðgjöf á spítala eftir barnsburð, áður en skimað var fyrir lifrarbólgu C.

Hér má sjá ítarlegt viðtal við Fanneyju Björk í nýjum sjónvarpsþætti á hringbraut.is, KVIKUNNI.

Fréttaskýring: Björn Þorláksson.