Í þættinum Fasteignir og heimili á dögunum heimsótti Sjöfn Þórðar, Örnu Guðlaugu Einarsdóttur kökuskreytingarmeistara og sælkera heim í eldhúsið. Sjöfn fékk Örnu til að sýna helstu leynitrixin þegar kemur að því að skreyta kökur. Örnu er margt til lista lagt og er snillingur þegar kemur að því að töfra fram ljúffengar og glæsilegar kökur sem skreyttar eru eftir óskum hvers og eins. Ekkert verkefni er of flókið fyrir Örnu og Arna nýtur þess að takast á við nýjar áskoranir í kökuskreytingum.
Í tilefni heimsóknarinnar bauð Arna uppá guðdómlegar ljúffengar kökur, annars vegar Gulrótarköku Örnu og hins vegar Kanilköku að hætti Örnu. Kökurnar voru skreyttar í fallegum haustlitum þar sem listrænir hæfileikar Örnu fengu að njóta sín til fulls.
Báðar kökurnar voru syndsamlega ljúffengar og kremið á Gulrótarkökunni var hreint lostæti og bráðnaði í munni, að sögn Sjafnar. Þessar verður þú að prófa.
Hægt er að sjá innlitið hér:
Hér gefur svo að líta uppskriftirnar af báðum kökunum. Hægt er að fylgjast með kökuskreytingum Örnu og panta kökur að eigin vali gegnum fésbókarsíðu hennar Kökukræsingar Örnu.
Gulrótarkakan hennar Örnu
2 bollar hveiti
1 tsk. lyftiduft
2 tsk. kanill
½ tsk. salt
1 bolli grænmetisolía
1 ¾ bolli sykur
3 egg við stofuhita
2 tsk. vanilludropar
2 bolli rifnar gulrætur
1 lítil dós ananaskurl ásamt safa (227g)
1 bolli pekan hnetur, ristaðar og gróflega saxaðar
¾ bolli kókosmjöl
- Hitið ofninn á 175°C gráður. Smyrjið og sigtið smá af hveiti á kökuformið.
- Blandið saman í skál hveiti, lyftidufti, kanil og salti. Takið til hliðar.
- Hrærið við meðalhraða saman olíu og sykri. Bætið eggjunum útí, einu í einu, þar til blandan er orðin þykk eða í um 2 mínútur. Hrærið vanilludropunum út í.
- Bætið þurrefnunum út í og hrærið vel saman.
- Bætið að lokum saman við gulrótum, ananaskurli og safa, hnetunum og kókosmjölinu og hrærið lítillega.
- Látið deigið í formið og bakið í um 40-50 mínútur eða þar til kakan er orðin gullin og smá sprunga hefur myndast í skorpuna. Þið getið stungið pinna í kökuna og séð þannig hvort hún sé tilbúin.
- Takið kökuna úr ofninum og látið kólna aðeins áður en hún er tekin úr forminu.
- Látið kremið á kökuna þegar hún hefur kólnað.
Krem
250 gr rjómaostur
3 msk. smjör
1 ½ tsk. vanilludropar
2 bollar flórsykur
Hrærið rjómaostinn og smjörið saman þar til það er orðið mjúkt, bætið við vanilludropunum og því næst hægt og rólega flórsykrinum.
Margfaldið uppskriftina ef nota á kremið til skreytinga og litið að vild.
Himnesk kanillkaka að hætti Örnu
2 bollar hveiti
1 tsk. lyftiduft
2 msk. kanill
¾ tsk. salt
1 1/3 bolli sykur
2/3 bolli smjör (við stofuhita)
2 tsk. vanilludropar
3 stór egg
2/3 bolli Nýmjólk
- Hitið ofninn í 180°C gráður (yfir og undirhiti) eða 160°C gráður í blástursofni
- Blandið öllum þurrefnum saman í skál.
- Í annarri skál, þeytið saman sykri, smjöri og vanilludropum þar til blandan er orðin eins og krem, bætið þá við einu og einu eggi.
- Hrærið þurrefnunum og mjólkinni saman við (til skiptis)
- Ef bakað er í einu formi er bökunnartími um það bil 40-45 mínútur en um það bil 30 mínútur ef bakað er í tveimur formum. Fylgist vel með og stingið prjón í kökuna miðja til að sjá hvort hún sé fullbökuð. (ef prjónninn kemur hreinn út úr henni er kakan tilbúin).
- Kælið vel.
Smjörkrem
250 g smjör við stofuhita
500 g flórsykur (1 pk.)
4 tsk. vanilludropar
2 msk. mjólk (2-4 msk.)
1 tsk. kanill (má sleppa)
Hrærið smjörið í hrærivél þangað til það er orðið mjúkt og létt. Bætið smá og smá af flórsykrinum saman við og hrærið vel á milli. Bætið því næst vanilludropunum saman við og mjólkinni. Ef kremið er of þykkt er hægt að bæta við mjólk en ef það er of þunnt má bæta við flórsykri. Mikilvægt er að hræra kremið mjög vel þegar maður ætlar að skreyta kökur því þá losnar þú við alla smjörkekkina og kremið verður með fallega áferð. Því lengur sem þú hrærir því betra verður kremið. Kremið verður hvítara eftir því sem þú hrærir það lengur.
Njótið vel.