Þekkt fyrir ástríðu sína í eldhúsinu

Ebbu Guðnýju Guðmundsdóttur þekkja margir. Hún er þekkt fyrir ástríðu sína í eldhúsinu og velja hollan og góðan mat fyrir alla fjölskylduna. Hún hefur gefið út þrjár matreiðslubækur og verið með sjónvarpsþætti þar sem hún hefur eldað fyrir áhorfendur. Sjöfn Þórðar heimsækir Ebbu Guðnýju heim í eldhúsið í þættinum Matur og heimili í kvöld þar hjarta heimilisins slær alla daga og fær innsýn í matarhefðir fjölskyldunnar og meira til.

Mataræði miðjarðarhafslegt og fjölbreytt

„Ég reyni að hafa matinn hollan, hreinan, bragðgóðan og einfaldan. Mér líður sjálfri best af þannig mat og það er einfaldast að búa hann til, svo þetta er vinn, vinn, ef ég má sletta á íslensku. Líklega teldist okkar mataræði svolítið miðjarðarhafslegt. En með árunum og meiri vitneskju er ég búin að átta mig á því að best er að borða fjölbreytt.“ Einnig er Ebba Guðný mikil áhugamanneskja um matarsóun og reynir að leggja sitt af mörkum til sporna gegn henni. Henni blöskrar sóunin sem virðist eiga sér stað á íslenskum heimilum. „Meðal fjölskylda hendir sem samsvarar 150.000,- krónum í ruslið ár hvert. Það er alveg skelfilegt. Margt skemmtilegt hægt að gera fyrir þann pening.“

Meira um þetta í eldhúsinu hjá Ebbu í þættinum Matur og heimili í kvöld klukkan 20.00 og aftur klukkan 22.00.