Þeim skuli refsað sem ekki geta unnið

Það álitaefni sem langmestur tími hefur farið í síðustu daga á Alþingi að ræða og hefur öðru fremur orðið til þess að stjórnarandstaðan náði að halda annarri umræðu fjárlaga í herkví svo um munaði, er sú ákvörðun meirihlutans að hækka ekki bætur til lífeyrisþega afturvirkt.

Ýmsar vísbendingar komu reglulega fram í umræðunni að meirihlutinn væri að  endurskoða fyrri afstöðu sína, enda lítið réttlæti í að þeir sem hafa ágætar tekjur, þingmenn sjálfir svo eitt dæmi sé nefnt, fái myndarlega jólagjöf frá kjararáði en öryrkjar sem þurfa að lifa af 180.000 króna mánaðargreiðslu skuli ekki njóta sömu fríðinda.

Útspil Bjarna Benediktssonar í vikunni hleypti sérlega illa blóði í minnihlutann sem og lífeyrisþega sjálfa og nokkurn hluta þjóðarinnar. Árni Páll Árnason, formaður Samfylkingar, segir að þar hafi birst sú skoðun Bjarna að það sé félagslega skaðlegt að lífeyrisþegar standi öðrum jafnfætis, þau ummæli eigi eftir að reynast fjármálaráðherra  ævarandi hneisa, ekki síst þegar skoðanakannanir mæli að 95% þjóðarinnar séu sammála um jafnstöðu lífeyrisþega.

Aftur á móti virtist um tíma að stjórnin væri að venda fyrri áherslu og hygðist koma á móts við lífeyrisþega. Ásmundur Friðriksson stjórnarþingmaður og einstaka fleiri þingmenn virtust tala á svipuðum nótum og meirihlutinn. En þeir urðu undir. Kannski í glímu um stolt. Kannski liggur annar og stærri sannleikur að baki.

Ítrekað hafa komið fram þau skilaboð hjá tilteknum þingmönnum meirihlutans, svo sem Brynjari Níelssyni og Vigdísi Hauksdóttur, að þau séu tortryggin gagnvart hópum sem njóta bóta eða lífeyris. Verður ekki annað ráðið en að allmargir stjórnarþingmenn telji það hættuleg skilaboð til vinnandi fólks og vinnusiðferðis hér á landi ef öryrkjum yrði gert kleift að lifa ámóta mannsæmandi lífi og vinnandi fólki. Fyrir utan útgjaldaaukann hjá ríkissjóði.

Bæði Brynjar og Vigdís hafa rætt mál þannig að óhætt er að staðhæfa að þau telji mannskepnuna þeirrar gerðar að ef hún geti svindlað út fé án þess að hafa neitt fyrir lífinu þá geri hún það. Reyndar var Brynjar sérstaklega spurður út í þetta í Kvikunni á Hringbraut og sagðist hann þekkja mannskepnuna nægilega vel til að vita að það þyrfti hvata ef hún ætti að sýna dugnað.

En er það raunhæf heimssýn að ætla fólki að nenna ekki að vinna eða komast léttara frá lífinu en ella ef kjör þeirra eru gerð betri? Hefur ekki vinnusemi verið landanum í blóð borið? Verður svo ekki áfram? Er sá félagslegi status sem fylgir því að vera fyrirvinna ekki hverjum Íslendingi mikilvægari? Nema hjá þeim sem fæðast með silfurskeið í munni og njóta forréttinda. Fyrir venjulegt fólk er aðeins með vinnu og mikilli vinnu hægt að sneiða hjá fátæktargildrunni á Íslandi.

Kann að hugsast að enn sé viðhorfsmunur gagnvart öryrkjum sem glíma við andlega erfiðleika eða til hinna sem fara sinna ferða í hjólastól?

Stjórnarandstaðan fór þrátt fyrir mikinn ræðutíma illa með tækifærið til að hamra á spurningum sem hefðu getað leitt af sér skýr svör á þinginu þannig að þjóðin fengi skýran valkost næst þegar gengið verður til kosninga. Svo vitnað sé til ályktunar ASÍ í gær sagði að áherslur stjórnarinnar miði að því að hækka verð á mat en lækka verð á lúxus. Að stjórnin dilli forréttindahópum.

Í öllu falli er ljóst að mikið vatn hefur runnið til sjávar síðan Bjarni Benediktsson kynnti stoltur fjárlögin fyrr í vetur, frumvarpið sem hann kallaði velferðarfjárlögin.

Kannski verða þau kölluð Aðgreiningarfjárlögin síðar?

Katrín Jakobsdóttir, formaður VG, orðaði það þannig í þingumræðu í gærkvöld að samfélög væru dæmd út frá því hvernig þau fara með sína viðkvæmustu hópa, börn, öryrkja og aldraða.

Eftir meðferð Útlendingastofnunar gagnvart albönskum börnum á dögunum liggur fyrir að margir ganga til jólanna með brot í eigin hjarta.

Nú bætist þetta við.

Það er rétt sem Illugi Gunnarsson ræddi við atkvæðagreiðslu í gær að orðið hefur útgjaldaauki á þingi frá fyrstu áætlun sem nýtast mun öldruðum og öryrkjum að nokkru.

En betur má ef duga skal. Nema að meiningin sé að senda þau skilaboð út til okkar kjósenda að þeir sem ekki séu hraustir og hafi alla burði til að afla tekna með vinnusemi sinni skuli hreinlega éta það sem úti frýs.

(Þessi pistill Björns Þorlákssonar birtist fyrst í Kvikunni á Hringbraut).