Þeim líkar framsóknarvistin vel

Náttfari horfði á Hringbraut í gærkvöldi þar sem þingmennirnir Sigríður Ingibjörg Ingadóttir og Jón Gunnarsson ræddu komandi prófkjör og kosningar. Alveg í lokin sagði Sigríður að nú væri tækifæri til að skipta um stefnu og hafna þeim flokkum sem gættu sérhagsmuna hinna fáu í sjávarútvegi og landbúnaði. Jón greip þetta á lofti og sagði að kostir kjósenda væru skýrir; annað hvort að styðja núverandi ríkisstjórnarflokka til “góðra verka” eða að kjósa sukkstefnu borgarstjórnarmeirihlutans í Reykjavík yfir sig.
 
Stór orð og athyglisverð fyrir þær sakir að með þessu er þingmaður Sjálfstæðisflokksins að lýsa því yfir að flokki hans hafi líkað Framsóknarvistin vel. Vorið 2013 var myndun ríkisstjórnar Sigmundar Davíðs tilkynnt við hátíðlega athöfn á Laugarvatni. Með því vildi Sigmundur undirstrika að þetta yrði Framsóknarstjórn upp á gamla móðinn þar sem sótt yrði í smiðju Jónasar frá Hriflu sem lét einmitt reisa héraðsskólann á Laugarvatni árið 1930. Bjarni Benediktsson virtist ekki átta sig á þessu. Hann lét teyma sig og Sjálfstæðisflokkinn blindandi inn í Framsóknarfjósið þar sem flokkarnir hafa dvalið. Margir héldu að Sjálfstæðisflokkurinn væri búinn að fá nóg af vistinni. En nú kemur annað á daginn. Jón Gunnarsson vill halda áfram samstarfi við þennan sérhagsmunagæsluflokk sægreifa og bænda. Mikilvægt fyrir kjósendur að vita þetta fyrir víst.
 
Svo talar hann niðrandi um borgarstjórnarmeirihlutann í Reykjavík en hann er myndaður af Samfylkingu, VG, Bjartri framtíð og Pírötum, með alls 9 borgarfulltrúum. Sukkmeirihluti? Ekki í þeim skilningi að enginn af þessum 9 hefur þurft að segja af sér á kjörtímabilinu vegna spillingar. Minnihlutinn er skipaður 6 borgarfulltrúum, 2 frá Framsókn og 4 sjálfstæðismönnum. Leiðtogi Framsóknar þurfti að víkja um tíma vegna þess að nafn hennar kom fram í Panamaskjölunum. Hún kom svo til baka eftir kattarþvott. Einn borgarfulltrúi Sjálfstæðisflokksins, Júlíus Vífill Ingvarsson, sagði af sér vegna uppljóstrana í Panamaskjölum sem sýndu að hann hafði ekki gert grein fyrir stórum fjárhæðum sem hann hafði geymt í skattaskjóli.
 
Vilji menn bera saman “sukk” borgarstjórnarmeirihlutans og fráfarandi ríkisstjórnar, þá er rétt að rifja upp að Hanna Birna Kristjánsdóttir þurfti að segja af sér vegna valdníðslu í svokölluðu lekamáli. Sigmundur Davíð Gunnlaugsson hrökklaðist frá völdum vegna stórfelldra Tortólaviðskipta þeirra hjóna. Bjarni Benediktsson og Ólöf Nordal koma við sögu í Panamaskjölunum en hafa ekki vikið úr embættum. Alla vega ekki ennþá. Illugi Gunnarsson treysti sér ekki í prófkjör enda rúinn trausti vegna fjármálasukks með Orka Energy og Ragnheiður Elín Árnadóttir á í vök að verjast í kjördæmi sínu vegna ýmissa vafasamra mála.
 
Ef þingmaður Sjálfstæðisflokksins vill tala um “sukk” ætti hann að hafa þetta allt í huga.
 
Telji hann fjármálastjórn borgarstjórnarmeirihlutans slaka, sem nokkuð er til í, þá ætti hann að rifja upp fjármálastjórn Reykjanesbæjar og Álftaness, þar sem flokkur hans réði ríkjum, áður en hann fellir stóra dóma.
Hjá Reykjavíkurborg mætti sitthvað betur fara en borgin stendur traustum fótum fjárhagslega. Það verður ekki sagt um Álftanes sem varð gjaldþrota og þurfti opinbera tilsjónarmenn eða Reykjanesbæ sem hefur staðið í langvinnum nauðasamningum við lánardrottna sína eftir 12 ára samfellda valdatíð Sjálfstæðisflokksins sem hafði hreinan meirihluta og réði því öllu. Eftir þann tíma var Reykjanesbær kominn í greiðsluþrot og við það að missa fjárhagslegt sjálfstæði sitt.
 
Þjóðin á betra skilið en stjórn þessara tveggja framsóknarflokka. Kjósendur hljóta að nýta tækifærið til breytinga þann 29. október nk.