Þegar við snæddum músétna nammið

Hugurinn hvarflar aftur til bernskunnar eins og stundum fyrir jól.

Upp var runnin Þorláksmessa. Níu ára gamall var ég. Á stærð þó við fimm ára gamalt barn, stundum strítt vegna þess. En á jólum skipti engu máli hvort maður er stór eða lítill.

Um leið og ég vaknaði kíkti ég í skóinn. Þar var mandarína og fleira gott í vændum.

Ég hafði ákveðið klukkan 12 á miðnætti á aðfangadagskvöld að opna brúnan bréfpoka sem ég hafði hrúgað í sætindum og gúmmelaði. Um það snerist hugurinn – og svo náttúrlega líka hvort maður fengi skemmtilegar bækur í jólagjöf.  Gott og háheilagt líf fram undan.

Síðasti dagur í sælgætisbindindi. Á þessum árum áttu mývetnsk börn það til að hefja sælgætisbindindi ca um miðjan nóvember. Hugmyndafræðin bak við sælgætisbindindi var að umskiptin, jólin sjálf, yrðu þá hátíðlegri en ella.

Þennan Þorláksmessumorgun hafði níu ára gamall mývetnskur drengur sumsé þraukað sælgætislaus í sex vikur.  Í gósspokanum góða sem ég geymdi inni í skáp voru þurrkuð epli, sveskjur, brjóstsykur, brúnn og hvítur, perubrjóstsykur, suðusúkkulaði, kandís og lakkrísrúllur. Og náfrændi minn á næsta bæ, átti líka sinn nammipoka.

Eftir að hafa sporðrennt mandarínunni klæddi ég mig í fötin. Hef sennilega skellt í mig smá súrmjólk og fór svo að hitta frændann sem bjó í húsi skammt frá á hinni svokölluðu Vogatorfu.

Við frændur bárum pokana okkar tvo saman. Þeir voru bústnir báðir pokarnir, það skrjáfaði fallega í þeim og ilmurinn upp úr þeim ærði óstöðugan. En skall þá líkt og þruma úr heiðskíru lofti skelfileg hugmynd á okkar barnshuga.

Hvað ef einhver stelur frá okkur namminu?

Til voru gráðug hrekkjusvín í þessari sveit sem og í öðrum sveitum. Fyrr en varði höfðum við frændinn talað okkur upp í að drengir með fullan poka af nammi yrðu að geta lagt þannig góss inn í banka. Af öryggisástæðum. En það var enginn banki í Vogum, ekkert öryggishólf, engin læst hirsla sem við höfðum einir lyklana að.

Auðvitað var stórhættulegt að geyma nammipokana bara inni í skáp. Á þessum árum var alþekkt að börn gengju út og inn úr húsum frændmenna og vina án þess svo mikið sem banka á dyr eða hringja dyrabjöllu. Vogatorfan var félagsbúskapur. Svo gátu komið göróttir gestir, alræmdir Húsvíkingar jafnvel, þá óttuðumst við mest! Við yrðum að fela nammið, geyma það á traustum stað. Geyma það bara einn sólarhring í viðbót, þangað til jólaði.

Skammt frá bernskuheimilum okkar frænda míns gnæfir klettur einn, Klofaklettur svokallaður. Hann klofnaði í tvennt í jarðhræringum fyrir þúsund árum og þykir nafn klettsins nokkuð lýsandi fyrir andlega heilsu Vogunga. Ýmsar sveiflur sem fylgja því að vera Mývetningur geta endað með klofningi. En við rætur Klofakletts er hola og þar höfðum við bakað drullukökur á sumrum. Eftir massívan sjálfshræðsluáróður afréðum við frændi þennan lágstemmda Þorláksmessudag fyrir 41 ári, því að fara með brúnu pokana okkar og snjóskóflu. Við mokuðum okkur leið í gegnum snjóinn og niður í holuna þar sem við ákváðum að geyma gotteríið til morguns. Enginn mátti sjá til okkar. Við komum namminu í skjól og settum stein ofan á. Veðurspakir sem við urðum snemma ályktuðum við réttilega að ekki mynda snjóa næsta sólahring.

Svo leið dagurinn. Nóttin kom líka og aðfangadagsmorgunn. Nú var plastbíll í skónum.

Við áttum í mesta vanda með að eira yfir teiknimyndum í sjónvarpinu, þvílíkur var spenningurinn. Lögðum leið okkar í fjárhús og hænsnakofa. Óskuðum vinum okkar, húsdýrum ýmsum, gleðilegra jóla. Þegar leið að sparifötum örkuðum við upp að Klofakletti og lyfrum upp steininum niðri í holunni. En eitthvað var öðruvísi en það átti að vera. Báðir brúnu bréfpokarnir, sem áttu bara að vera fullir af fínu nammi, voru rifnir og tættir. Á súkkulaðinu, þurrkuðu ávöxtunum og því öllu voru rispur og tannaför eftir lítil dýr. Mýs. Hagamýs.

Fífl höfðum við verið.

Við frændinn féllum á kné og horfðum til himins. Af hverju nú? Af hverju við? Af hverju rétt fyrir afmæli jólabarnsins? Af hverju var okkar refsað eftir dugnaðinn, staðfestuna, afneitunina, hið langa sælgætisbindinindi. Hví hafði Guð, sjálfur pabbi Jesúbarnsins, ákveðið að refsa okkur ungum og góðum sveitadrengjum svo harkalega? Fyrir engar sakir.

Heldurðu að það sé ekki lygi að maður fái taugaveiki af því að éta það sem mýs hafa étið? Spurði þá frændinn, enda getur verið gott í krísu að snúa gamalli vitneskju á haus.

Lygi? Með taugaveikina? Það er náttúrlega kannski ekki alveg víst, að maður verði brjálaður og taugaveikur af því að éta mýs, nei ég meina borða það sem mýs éta, svaraði ég.

Með blik í augum hröðuðum við okkur heim. Hangikjötið var fullsoðið, síðustu jólakveðjurnar í útvarpinu. Grenið komið upp og allt eins gott og það getur orðið – ef undan var skilið nammiáfallið sem hvorugur okkar frænda ræddi við nokkurn mann.

Að loknu jólabaðinu settust fjölskyldur um land allt í sínu fínasta pússi við kvöldverðarborðið. Rjúpur, hangikjöt, desert, möndlugjöf og pakkaflóð. Nærföt, sokkar, Tarzan og Bob Moran. Eftir jólamessuna í sjónvarpinu var í lagi að tékka sig út. Ég læddist inn í herbergið mitt, lokaði og hófst brátt handa við að vinna á músétna namminu.

Það var dýrkeypt máltíð.

10 árum síðar var ég enn smeykur um að músétna nammið ætti eftir að draga mig til dauða. En ég er eiginlega hættur að hafa áhyggjur af því núna og get því loks skrifað frjáls eins og fuglinn um þetta minnisstæða en misheppnaða sælgætisbindindi og eftirmál þess.

Lærdómurinn af frásögninni er lítill, í öllu falli óljós. Kannski veltir endurminningin upp spurningum um að maður eigi ekki að trúa öllu sem maður heyrir. Kannski fjallar sagan líka um að stundum þarf að taka áhættu en þá er gott að vita hvaða gjald verður greitt fyrir hugsanlegar afleiðingar hennar.

Þetta voru frábær jól. Eins og öll önnur jól. Það var gaman að innbyrða heilt kíló af músétnum sykri. gaman að útrýma músnöguðum þurrkuðum ávöxtum yfir dýrðarlestri fram á morgun, þökk Bob Moran og Tarzan.

Þótt það kostaði kvíða síðar.

Annað hvort er maður maður eða mús...

(Þessi pistill Björns Þorlákssonar birtist fyrst í Kvikunni á Hringbraut).