Það er fössari og viðrar vel til ferðalaga.
Sumir fara í bústað, aðrir flakka kannski í fermingarveislur milli landshluta. Betur stæðir eiga pantað flug í helgarferð til erlendra stórborga og kannski eru bissness- og sjávarútvegsmógúlar byrjaðir að éta gull á ný. Ekki slor eða lýsi á þeim bænum. Margir verða þó að láta duga að gera sér dagamun með því einu að kaupa pulsupakka fyrir börnin eða pizzu og sækja sjálfir.
Þannig er Ísland í dag. Land hinna ójöfnu tækifæra.
Þá er ógetið þeirra sem hafa aldrei efni á einu né neinu, hvorki um helgar né aðra daga. Það er sá hópur sem kaupir ódýrasta og versta kaffið, ódýrasta djúsinn, lifir á núðlum, bíður eftir strætó, hefur engan flótta annan frá hversdeginum en bækur frá bókasafni eða kvölddagskrá Rúv þegar vinnustriti á láglaunataxta linnir um helgar.
Börn fátæka fólksins hafa ekki efni á tómstundum. Þau eru litin félagslegu hornauga í skólanum, læra snemma að möguleikar til landvinninga skulu metnir eftir efnahagslegum vöggugjöfum, byggðum á fjárhag foreldra. Að ekki sé minnst á öryrkjana eða fátæka aldraða einstaklinga og sjúkt fólk sem hefur mátt þola að gjalda með eigin sálarspeglum fyrir heilbrigðisþjónustu sem áður þótti sjálfsagt að greidd væri sameiginlega með skattfé og þá ekki síst með skattfé hinna ríku.
Ísland í dag. Ísland ójafnaðar. Ísland þess tíma þar sem ríkjandi orðræða ráðandi stjórnmálamanna sl. þrjú ár hefur gengið út á að \"leiðrétta\" lýsingu eins og hér að ofan, leiðrétta fréttaflutning um að hluti þjóðar lepji dauðann úr skel og að það sé óásættanlegt.
Hvað gerðist?
Já, hvað gerðist? Við erum enn að reyna að ná utan um hvað skýrði að meginþorra þjóðarinnar skyldi takast að gefa Sigmundi Davíð Gunnlaugssyni rauða spjaldið þannig að hann hrökklaðist frá valdamesta embætti landsins á aðeins þremur dögum.
Var það vegna hneykslunarinnar einnar sem greip um sig í kjölfar afhjúpunar Jóa Kr. og Kastljóssins? Eða vó einnig þungt hin uppsafnaða gremja sem hafði skapast vegna oflætisins, auðmannadekursins, skilningsleysis fv. forsætisráðherra á hlutskipti og þörfum ólíkra hópa samfélagsins, tvöfeldninnar og ójafnaðarins?
Afsakið orðbragðið en það var líkt og þjóðarrassinn opnaðist skyndilega eftir þennan Kastljóssþátt. Enginn tími fyrir haugsugur eða leiðréttingar. Landið bara ægði sér í beinni útsendingu á Austurvelli sem og víðar um land í fjöldamótmælum. Skíturinn sem hlaðist hafði upp losnaði loks án fyrirhafnar, fann sér farveg. Skíturinn var óréttlætið sem safnast hafði fyrir í innstu iðrum þjóðarlíkamans.
Ekki leiðtogi almennings
Við höfum ekki samsamað okkur Sigmundi Davíð sem þjóðarleiðtoga í sautjánda júní ræðunum hans sem helst hafa upphafið Íslendinga út frá þjóðrembu sem kalla mætti kynþáttahyggju. Við höfum heldur ekki fundið fyrir neinni öryggiskennd með ræðunum sem hann hefur flutt okkur á gamlárskvöld. Við hlustuðum á sama tóninn, alltaf sama tóninn eins og að samfélag væri ekki flókið fyrirbrigði og þyrfti ekki marga og ólíka tóna, visku, djúphygli, samtal við alla, ekki bara frekju, hroka, leiðréttingar. Við hættum um síðir að hlusta, fórum með æðruleysisbænina, héldum í okkur, lengur og lengur. En þegar við sáum hann ljúga, þegar við fengum sönnun fyrir því að hann hafði haft okkur að fíflum og hefði gert það áfram ef blaðamenn hefðu fallist á ósk hans um að eyða lygaviðtalinu án þess að um yrði getið, þegar við urðum vitni að þessu öllu sögðum við hingað og ekki lengra.
Má þakka fyrir
Sigmundur Davíð Gunnlaugsson má þakka fyrir að vera huti af þjóð sem er svo friðsæl að ekki er vitað til að einn einasti borgari þessa lands hafi veist að honum með ofbeldi þó að mörgum hafi réttilega verið heitt í hamsi. Miðað við öll svikin og ójöfnuðinn sem hann hefur kynt undir sýnir það að Íslendingar eru góð og friðsæl þjóð. Hann var heppnasti forsætisráðherra í heimi. Á hans vakt fóru túristar að streyma til landsins sem aldrei fyrr og kynda nú hagvöxtinn skv. AGS. Samkvæmt Alþjóða gjaldeyrissjóðnum eru það ekki persónuleg kraftaverk SDG eða Bjarna Ben sem skapa tímabundna efnahagsgæfu landsins, ekki ójafnaðarstefnan, ekki auðmannadekrið, ekki skattalækkanir á hina ríkustu, ekki lækkun veiðigjalda, ekki afnám auðlegðarskatts, ekki inngrip Sigmundar í styrkveitingar, ekki skoðanir SDG á arkitektúr, ekki botnlaus valdagræðgi sem hefur lýst sér í því að Sigmundur Davíð færði nánast daglega völd frá sjálfstæðum stofnunum inn í sitt eigið ráðuneyti á sama tíma og hann bannaði gagnrýna umræðu um sjálfan sig. Ekkert af þessu skóp efnahagsbatann heldur allir ferðamennirnir sem og hagstætt árferði í hafinu og lágt eldneytisverð svo þrennt sé nefnt.
Við eigum öll betra skilið
Á sama tíma hafa sérfræðingar unnið að haftalausnum og horfir vel, þökk sérfræðingum og góðri samvinnu við alþjóðaumhverfið, hið sama alþjóðaumhverfi og Sigmundur Davíð ræddi sem óvin. Á sama tíma geymdi hann milljarða í skattaskjóli og höfðaði kröfur í þrotabú föllnu bankanna um leið.
Það þarf að jafnaði mikið til að þjóðarrassinn opnist. En þegar hann opnast verður eitthvað undan að láta.
Nú er fössari, helgin framundan og þar sem boðað hefur verið til kosninga næsta haust kann vel að vera að þeir sem ætluðu ekki að leyfa sér annað en pizzu í kvöld láti það eftir sér í ljósi nýrrar vonar að kaupa inn lambalær í þeirri trú að jöfnuður muni aukast hér á landi með nýrri hauststjórn.
Við eigum öll skilið að geta gert okkur dagamun við og við. Land sem er eins ríkt af auðlindum og raun ber vitni hlýtur að ala af sér það sameiginlega markmið að loknu þessu þriggja ára bilaða skeiði Íslandssögunnar að allir skuli hafa efni á skötusel eða lambalæri a.m.k. sumar helgar ársins.
Hér eru til nægir peningar. Það þarf bara að endurútdeila þeim með réttlátum hætti.
Og það vissu landsmenn þegar þeir opnuðu þjóðarrassinn upp á gátt. Svo eftir hefur verið tekið út um allan heim og hefur með mikilvæga hreingerningu að gera.
Björn Þorláksson