Saga af góðverki á eiðistorgi og þegar sjúkraflutningamenn gerðu grín að útigangsmanni - hjálpum þeim

„Ég hef verið að fylgjast með þessum manni vegna þess að lögreglan hefur þurft að koma hingað á Eiðistorg þrisvar sinnum í þessari viku að ná í hann í annarlegu ástandi. Ég hef því miður fylgst líka með því þegar fólk hringir á lögregluna til að „hirðann“. Ég hef fylgst með honum steinsofandi á bekk og enginn athugi hvort hann sé hreinlega á lífi.  Rétt í þessu gaf ég þessum manni brauð og gatorade, hver veit hvenær hann borðaði síðast.

Eftir nokkra sopa og hálft crossant gat hann aðeins talað og sagði mér nafn sitt og þakkaði fyrir sig. Því miður nær lögreglan í hann og skutlar honum í gistiskýli og svo ratar hann hingað aftur á morgnanna.“

Þannig hóst mikilvæg frásögn sem Snædís Snorradóttir, samstarfskona mín á Sjónvarpsstöðinni Hringbraut, birti á Facebook. Hefur færslan vakið mikla athygli. Ég hef sjálfur orðið var við þennan mann á Eiðistorgi. Í eitt skipti lá hann slasaður í gólfinu og ég sá ekki betur en hann hefði ælt blóði. Maðurinn var algjörlega ósjálfbjarga. Það var átakanleg sjón. Lögregla og sjúkraflutningamenn komu á svæðið til að sækja hann. Hann var settur á börur og inn í sjúkrabíl. Allt mjög fagmannlega gert fram að þessu. Sjúkrabíllinn var enn opinn þegar sjúkraflutningamennirnir göntuðust að ástandi mannsins við lögregluþjónana. Grínið snerist um lykt sem átti að leggja af manninum og að hann myndi subba allt út. Svo lokuðu þau brosandi bíldyrunum og sjálfur veit ég ekki hvort maðurinn heyrði hvað var sagt. Líklega var hann ekki meðvitaður um hvað var að gerast í kringum hann. Ég vona alla vega ekki. Og eflaust var þetta ekki illa meint hjá þeim sem voru þarna til að aðstoða hann, ekki átt að vera meiðandi og þau ekki áttað sig á í hita leiksins að framkoma þeirra væri óviðeigandi.

Þegar við í fjölmiðlum tökumst á við erfið mál eigum við það til að segja óviðeigandi brandara. Oft eru þetta ósjálfráð viðbrögð til að brynja sig frá hörðum veruleikanum sem við erum að fjalla um. Ofbeldi, spillingu, barnaníð og svo mætti lengi telja. Ég efast ekki um að slíkt eigi sér stað í öðrum starfsgreinum. Auðvitað er ekkert sem réttlætir slíkt og hvað þá þegar það er gert fyrir framan okkur smæstu bræður og systur sem þurfa á aðstoð að halda.

Snædís skrifaði á Facebook að pósturinn hefði svo sem enga sérstaka merkingu aðra en að stundum sé hægt að hjálpa. Það þarf ekki alltaf að vera stórt. Eitt crossant og drykkur með getur gert kraftaverk. Þess vegna tek ég heils hugar undir orð Snædísar:

„ ... stundum getur maður hjálpað, þó ekki nema aðeins, í örskamma stund.

Gerum það þá.

Hjálpum.“