Þegar Sindri Sindrason er ekki að vekja fólk um miðjar nætur eða hnýsast í ísskápa eða persónulegar hirslur fólks gerir hann góða þætti í sjónvarpi. Einn slíkur var í gærkveldi um tálmun á umgengni. Öllum er ljóst hvurslags ofbeldi slík tálmun er og þær alvarlegu afleiðingar sem fylgja.
Til að stemma stigu við þessu ofbeldi lagði ég fram frumvarp um breytingu á barnaverndarlögum, ásamt nokkrum örðum, þar sem lagt var til með skýrum hætti að sömu viðurlög giltu um þessu brot og önnur alvarleg andleg og líkamleg brot gegn börnum og að barnaverndaryfirvöld hefðu sömu úrræði og þau hefðu í öðrum vanrækslumálum gagnvart börnum. Gekk ég út frá því sem vísu að þingheimur tæki nú undir meginmarkmið þessa frumvarps. Reyndin varð samt önnur.
Þeir flokkar sem sí og æ stæra sig á því að vera í baráttu gegn hvers kyns ofbeldi og vera mjög umhugað um velferð barna börðust hatrammlega gegn frumvarpinu og hafa komið í veg fyrir að hægt sé að greiða atkvæði um málið. Flestir áttu nú erfitt með að útskýra andstöðu sína sína við málið og því var farið í hártogun um að viðurlögin væru of harkaleg og það væri ekki gott fyrir börnin að mæður færu í fangelsi. Að vísu þarf enginn að fara í fangelsi en rétt er að benda á að fangelsin eru uppfull af feðrum og enginn hefur áhyggjur af því.
Að því að við eigum nú tilfinningaríka þingmenn kom fram í umræðum um málið síðast raunverulega ástæðan fyrir andstöðunni. Frumvarpið er sem sagt árás á konur og réttindi þeirra. Þá vitum við að vernd barna gegn ofbeldi er léttvægari en réttindi mæðra og sennilega eru réttindi feðra í huga þessa fólks aftast ef þau eru þá yfirhöfuð með.