Þegar pabbi þjóðnýtti skólaúlpuna

 

Ef maður starir of lengi niður í hyldýpið fer hyldýpið að stara á móti, sagði Nietzche.

Ég skrapp austur í Mývatnssveit um daginn á uppvaxtarslóðir og rak augun í grábrúna Bandido úlpu, árgerð 1980.

Saga þessarar úlpu hófst þegar við mamma ókum á Landrovernum frá Mývatnssveit til Húsavíkur í því skyni að fata upp einkasoninn. Vistaskipti voru framundan. Örverpið í Vogum 4 hafði fengið inni í Menntaskólanum á Akureyri. Það var nokkur kvíði í mér, ég var með hugmyndir um að fatnaður okkar mývetnskra barna kynni að þykja sveitalegur í því mikla þéttbýli sem Akureyri var óneitanlega í samanburði við Skútustaðahrepp. Sérlega vel yrði að vanda til valsins á sjálfri SKÓLAÚLPUNNI sem allt snerist um í huga þingeyskra unglinga á þessum árum. Einsleitni og það að falla í hópinn var ekki bara norm heldur krafa. Eftir miklar kvalir og pot út í loftið í fatadeild Kaupfélags Þingeyinga varð niðurstaðan sú að við mamma völdum Bandido-úlpu nokkra grábrúna sem minn menntaeinkennisbúning.

Nokkrum dögum eftir kaupin kyssti ég foreldra mína bless og fékk far „inn eftir“ með Erlingi Sigurðarsyni menntaskólakennara. Erlingur veitti ekki úlpunni sérstaka athygli en þar sem við köstuðum milli okkar mývetnzkum fróðleik vakti athygli mína að verðandi lærifaðir minn í skólanum notaði orðalagið „sakir þess“ þegar mikið lá við. Ég hafði alltaf sagt „sökum þess“ en ákvað á einu augabragði að skipta nú alfarið yfir í Erling, enda kenndi hann íslensku.  Reikult og rótlaust þang var ungur maður, líkt og skáldið Jóhann Sigurjónsson og báðir Þingeyingar.

Daginn eftir hófst menntaskólinn. Mér til hryllings sá ég ekki einn einasta nemanda í úlpu eins og minni. Í löngu frímínútunum varð mér ljóst að Bandido væri einn á báti í þessum skóla. Bandido var „out“. Einn bekkjarbróðir minni upplýsti að hann hefði átt svona úlpu í fyrra. Hjá unglingum snýst allt um tímasetningar. Fimmtugur karl getur farið á útsölu og dubbað sig upp, hálfu ári á eftir tískunni, en sá lúxus er ekki alltaf fyrir hendi hjá leitandi og viðkvæmum unglingum. Rauðar og bláar Millet-úlpur voru málið. Ég var klæddur í kolrangan búning.

Eftir nokkra skóladaga í Eyjafirðinum lagði ég úlpunni. Fór minna ferða á peysum fram að jólum. Í jólafríinu heima í sveitinni endurnýjaði ég kynnin við Bandido í virðingarskyni við foreldrana sem höfðu splæst úlpunni á mig en svo „gleymdi“ ég henni af ásettu ráði í forstofuskápnum heima þegar ég sneri aftur til Akureyrar að loknu fríi og sagði mömmu að hún þyrfti ekki að senda mér hana.

Mörgum árum eftir stúdentspróf hafði ég búsetu í Reykjavík. Heimsóknir á norðlægar bernskuslóðir voru stopular en í einu páskafríinu ákvað ég að aka heim, í lambalærið, ORA-grænu, heimagerðu sultuna og sósuna hennar mömmu.  Þegar ég átti örstuttan spöl eftir að ættaróðalinu mætti ég manni á hressingargöngu, í grárri úlpu. Það var kominn pabbi minn á áttræðisaldri, maður í skólaúlpu, merktur Bandido. Fulltrúi kynslóðarinnar sem fyrirleit bruðl, fulltrúi kynslóðar sem taldi það æðstu skyldu ævigöngunnar að að nýta allt sem hægt væri að nýta, hafði loks fundið krók á móti hégómabragði sonarins. „Hvað varstu að hugsa að nota ekki þessa úlpu, Bjössi minn? Úlpan er algjörlega óslitin,“ sagði sá gamli og ég varð aftur fimmtán ára eitt andartak áður en við brostum báðir.

Pabbi er horfinn yfir móðuna miklu. En enn hangir úlpan á herðatrénu í gamla forstofuskápnum. Minnisvarði um ferðalag ólíkra heima. Úlpan okkar beggja.

(Þessi fyrsti pistill Björns Þorlákssonar á Hringbraut er sá fyrsti sem birtur var í Kvikunni sl. haust en er hér endurbirtur, lítillega umskrifaður af höfundi, enda umhugsunarefni þegar neysluinnkaup aðventunnar nálgast hápunkt.