Að misþyrma barni - saga af sársauka


Í seinni tíð heyrist oft bæði í ræðu og ritI að ábyrgðarkennd barna og ungmenna sé nútildags ekkert til að hrópa húrra yfir. Það heyrist líka að ungmenni Íslands séu löt. Samt er stundaskrá marga barna þannig að ekki verður betur séð en vinnudagurinn sé oft nálægt 12 tímum þegar tekið er tillit til tómstunda, íþróttaiðkana og annars þess sem svo mörg íslensk börn stunda af kappi með skóla og vinnu.
Rómantísering fortíðarinnar ágjarnan greiða leið að fjölmiðlum. Vinsælir pistlahöfundar gera grín að því að í dag krefjist þeir áfallahjálpar sem missi af strætó. Oft má lesa skrif sem kynda undir þeirri hugsun að við séum öll að verða að aumingjum, að við kunnum ekki lengur að bíta á jaxlinn. En hvað hefur það kostað að bíta á jaxlinn og horfa í hina áttina?

Þegar ég rifja upp eigin bernskuár voru þau heilt yfir góð. Engum vafa er þó undirorpið að við börnin sem fæddumst á sjöunda áratug síðustu aldar fengum ýmsa ábyrgð í fangið sem mæddi margt barnshjartað. Nýjum tímum fylgir ný ábyrgð. Sumpart fylgir því e.t.v. öðruvísi ábyrgð  að vera barn í dag en áður. Kannski hefur orðið til ný ábyrgð, tengd tæknibreytingum og símiðlun. Börn hafa að jafnaði meira að bíta og brenna en tölur um vanlíðan margra þeirra, geðvanda eru líka sláandi. Í sumum tilvikum veltir það upp spurningum um hvað fór úrskeiðis hjá kynslóð foreldra þeirra.

Sem sveitarstrákur ólst ég upp við að börn voru vinnuafl, sömu sögu má vitaskuld segja úr sjávarþorpunum. Líf fæstra barna var þó eilífur þrældómur. Frelsi barna var mikið á seinnihluta aldarinnar sem leið, stundum meira en börn stóðu undir.

Upp úr fjórtán ára aldri, nánast daginn eftir fermingarsnapsinn í kirkjunni, þótti enginn unglingur maður með mönnum nema að smygla sér inn á sveitaböll. Það var enginn léttur bjór þá til að lyfta huganum. Í sveitinni var aðallega aðgengi að landa, 40-50% sterkum. Harmleikir voru enda algengir af völdum óstjórnlegrar áfengisneyslu en fóru sjaldnast hátt. Með sama hætti fór sjaldnast hátt þegar börnum var refsað svo harkalega fyrir yfirsjónir að hlaut að skaða sálartetrin.

Einu sinni voru tveir drengir afar óþekkir í skólarútunni í sveitinni. Annarþeirra stofnaði hreinlega lífi allra í bílnum í hættu með því að setja brúnan ógeðslegan bréfþoka sem þvælst hafði um ganga rútunnar ofan á hausinn á bílstjóranum sem þurfti að nauðhemla og hefði getað farið út af og velt. Bílstjórinn titraði af ótta og vanmætti en fór svo aftur í bílinn og náði í drengina, tók þá með sér út. Hann opnaði farangursgeymsluna og tróð báðum drengjunum í \"lestina\" eins og hún var kölluð. Svo var ekið af stað. Drengirnir hentust til og frá í lestinni sennilega um tíu kílómetra akstur. Mig minnir að annar hafi verið búinn að æla þegar drengjunum var hleypt út úr níðþröngri töskugeymslunni. Verst var að sjá óttann og sársaukann í augum þeirra. En hann var líka að finna í augum bílstjórans.

Rútan stoppaði nokkru síðar við bæinn minn. Ég gekk heimreiðina og fann fyrir einhverri órökrænni samsekt sem kannski tengdist meðvirkni. Ákvað að segja ekki frá. A.m.k. ekki strax.

þetta var einstætt tilvik en því miður eru fleiri sögur. Einu sinni lamdi kennari skólakrakka með knýttum hnefanum beint í andlitið upp við skólatöfluna vegna \"hortugheita\" eins og það var þá kallað. Þetta var á þeim tímum sem lesblint barn upplifði helvíti á hverjum skóladegi, fyrir daga greininga sem nú auðvelda nútímafólki mjög lífið. Bubbi Morthens hefur rakið sína sorgarsögu og margir tengja við. Þeir voru taldir heimskir og hortugir sem ekki gátu lært að lesa með hefðbundnum hætti. Af þessu spratt oft upp mikill sársauki og fóður fyrir einelti og ofbeldi.

Kjarna þessarar frásagnar er ekki ætlað að hverfast um ábyrgð fullorðinna sökudólgana sem við erfiðar aðstæður gripu til örþrifaráða sem þeir hafa et.v. verið sjálfir beittr þegar þeir voru börn. Framferði þeirra verður aldrei afsakanlegt en hér er fremur viðleitnin að beina spjótunum að hagsmunum barnanna. Þessar sögur eru alls ekki dæmigerðar fyrir upplifun mína af verunni í sveitinni. Sveitin var að mörgu leyti eitt yndislegasta umhverfi sem barn gat alist upp við en þegar upp komu aðstæður sem kölluðu á sérhæfð úrræði brugðust krosstré sem stundum varð aftur til þess að sök skammar var snúið við. Sögurnar eru sannar, skuggar fortíðarinnar hverfa ekki þótt þagað sé eilíflega um atvik. Sumir vina minna og ættingja kunna mér e.t.v. litlar þakkir fyrir að rifja þessi dimmu augnablik upp, áratugum síðar. Það getur kostað nýjan sársauka að ræða gamlan sársauka upphátt en í ljósi upplýsingahyggjunnar freistast maður til að trúa að ekki færi betur á því viðhalda áfram launhelginni. Með því að draga meinsemdirnar gefst kannski einhverjum kostur á nýju uppgjöri og nýju frelsi.

Næst þegar við bölvum ungu kynslóðinni (og með því erum við líka að bölva okkur sjálfum, því börn eru afsprengi okkar eigin verka) ættum við kannski að rifja upp nokkur þeirra atvika úr fortíðinni sem við höfum árangurslaust lagt mest á okkur að gleyma. Bælingin leiðir ekkert gott af sér, segir Freud. Meinin hverfa ekki þótt maður tali ekki um þau.

Og fyrir samtímann er kannski vert að velta því fyrir sér hvort þeir sem öllum stundum trega liðna tíma og fella þunga dóma um aumingjavæðingu ungmenna mættu e.t.v. hugsa sig örlítið betur um.

(Þessi pistill Björns Þorlákssonar birtist fyrst í Kvikunni á hringbraut.is)