Fyrirsögnin er fengin úr lykilsetningu í afar merkilegri bók sem kom út fyrir skömmu. Þetta er bókin
Villikettirnir og vegferð VG
Frá væntingum til vonbrigða
eftir Jón Torfason skjalavörð. Á bókarbaki segir að hann hafi \" ... starfað í íslenskri vinstri hreyfingu í áratugi og var einn af stofnendum VG.\" Bókaútgáfan Sæmundur gefur út 2016.
Jón gerir grein fyrir tilurð bókarinnar í formála þar sem fram kemur að hann (og fleiri VG liðar) hafi undrast þróun mála árið 2009 þegar VG tók sæti í ríkisstjórn með Samfylkingunni sem hafði það að sínu helsta, ef ekki eina, máli að sækja um aðild að Evrópusambandinu. þvert á allar stefnuyfirlýsingar flokksráða, funda og forystumanna, ekki síst Steingríms J. Sigfússonar.
Rakin eru fjölmörg dæmi um það þegar fjölmiðlar og þingmenn leiða líkur að því að VG og þá sérstaklega Steingrímur séu til í þann dans að sækja um aðild - með Samfylkingunni. En - ævinlega komu stórir og ákveðnir svardagar forystunnar um að ekkert væri hæft í því. Þar stóðu þau þétt saman, Steingrímur formaður og Katrín Jakobsdóttir varaformaður, nú formaður. Svo sóttu þau um aðildina, með Samfylkingunni. Jón Torfason sigir um þessi hughvörf Steingríms á bls. 38 að afstaða hans hafi breyst skyndilega \" ... þegar hann eygði von um ráðherrasæti\" í ríkisstjórn Jóhönnu Sigurðardóttur.
Augljóst er að Jón Torfason skrifar þessa bók til þess að andæfa gegn einhliða mynd, sem Steingrímur dró upp í sinni bók, \"Frá hruni og heim\" sem hann skrifaði með Birni Þór Sigbjörnssyni blaðamanni. Jón gerir sérstaklega grein fyrir þeim ástæðum í formálanum, að nauðsynlegt sé að fleiri sjónarhorn fái að komast á bók.
Bókin er sérlega fróðleg fyrir áhugamenn um íslensk stjórnmál, ekki síst nú þegar stjórnmálahreyfingin \"Vinstri hreyfingin grænt framboð\" virðist vera að ná flugi á ný.
Eins og góðum heimildaritum sæmir er víða leitað fanga, notast er við fréttir úr fjölmiðlum, tölvupósta þingmanna og flokksmanna VG, þingræður og - það sem líklega gefur bókinni meðst gildi: Samtöl höfundarins við þingmenn VG á þessum tíma, sérílagi Jón Bjarnason og Atla Gíslason og koma þar fram margvíslegar upplýsingar sem hvergi annars staðar hafa vitnast.
Jón fer ekki í grafgötur með að hann er sjálfur harður andstæðingur ESB aðildar og aðildarumsóknarinnar á sínum tíma. Hann rekur ítarlega andstöðu innan VG gegn umsókninni, nefna má þar sérstaklega Jón Bjarnason, Atla Gíslason, Ásmund Einar Daðason (nú þingmann Framsóknar), Lilju Mósesdóttur, Ögmund Jónasson, einnig þingmenn annarra flokka eins og Margréti Tryggvadóttur og Birgittu Jónsdóttur úr Borgarahreyfingunni, að ógleymdum virkum flokksmönnum VG víða af landinu.
Þungamiðja bókarinnar hverfist um ESB aðildarumsókina og undirmálin sem henni fylgdu á Alþingi og ekki síður innan VG. Titill bókarinnar, um villikettina, er fenginn úr frægri samlíkingu Jóhönnu Sigurðardóttur sem var forsætisráðherra bæði í minnihlutastjórn VG og Samfylkingar frá 1. febrúar 2009 og svo í vinstri stjórninni sem tók við að loknum kosningunum þá um vorið. Jón Torfason ver miklu rými í að greina frá því ofbeldi sem viðgekkst (stutt fjölmörgum tilvitnunum í þingmenn) á Alþingi til að knýja með gríðarlegum þrýstingi fram stuðning nægilega margra við umsóknina. Seinna sama ár var svo samskonar ofbeldisstríð um Icesave-málið.
Allan tímann, meðan á þessu stóð kom forysta VG fram opinberlega með sama hætti: Það væri helber þvættingur að til stæði að VG veitti nokkra tilslökun í ESB málinu! Svo studdu þau umsóknina, gerðu hana að sinni stefnu! Það voru Steingrímur J. Sigfússon og Katrín Jakobsdóttir. Sama var svo uppi á tengingunum í Icesave-málinu!
Það er ekki síst þetta sem gefur bók Jóns Torfasonar gildi í nútímanum. Hin grímulausa tvöfeldni VG forystunnar. Má kannski nefna í því samhengi eina nýlega fyrirsögn á Vísi: \"Steingrímur J.: Alger þvættingur að fyrir liggi samkomulag VG og Sjálfstæðisflokks\"
Sjá hér: http://www.visir.is/steingrimur-j.--alger-thvaettingur-ad-fyrir-liggi-samkomulag-vg-og-sjalfstaedisflokks/article/2016161029822
Þetta sama sagði hann, margítrekað, um stuðning VG við aðildarumsóknina eins og rakið er ítarlega í bók Jóns Torfasonar. Og - arftaki hans, núverandi formaður Katrín Jakobsdóttir stóð ávallt og ævinlega þétt við bak hans í þeim undirmálum.
Eigum við að treysta þeim betur núna?