Kannski eiga opinberar fígúrur eins og fjölmiðlamenn eru óneitanlega aldrei að opinbera veikleika sína eða draga ótilneyddir fram í dagsljósið tímabil sem þeir eru ekki stoltir af. En kannski er hitt ekki betra að viðurkenna aldrei mistök, hafna hugmyndinni um sammannlegan breyskleika, mennskuna, en hluti mennskunnar er að viðurkenna bresti til að geta lært af þeim. Við höfum nægilega mörg dæmi úr íslenskum stjórnmálaheimi til að sjá að það að horfast aldrei í augu við eigin mistök kann ekki góðri lukku að stýra. Það er til frasi um þetta sem er: „Nú er ekki tíminn til að stara í baksýnisspegilinn heldur skiptir mestu að horfa fram.“ Það er þessi bölvaði frasi sem á þátt í að við erum enn reið eftir hrunið, enda hefur lítið verið gert til að bjóða upp á nýja sátt eftir algjöran trúnaðarbrest milli ráðandi stjórnmálaflokka og almennings. En það er samt önnur ástæða sem jafnvel vegur þyngra í því að ég ætla nú að afhjúpa dálítið dimman tíma í mínu eigin lífi, í von um að hægt sé að læra af honum.
Fyrir 12 árum, í janúar árið 2004, átti ég þess kost að fara í áfengismeðferð með örskömmum fyrirvara. Augu mín höfðu þá skyndiopnast fyrir því að líf mitt var komið í algjöra niðurníðslu. Ég gafst upp fyrir sjálfum mér eins og það er kallað. Ég flaug suður frá Akureyri, gekk inn fyrir dyrnar á Vogi. Lét mig hafa það að láta starfsfólkið taka af mér rakspírann minn ef ske kynni að ég myndi drekka hann í meðferðinni!
Eftir 8 daga á Vogi tók við tími á Staðarfelli. Árangur meðferðarinnar varð sá að ég stundaði AA-fundi í átta ár á eftir. Drakk ekki einn dropa af áfengi á þeim tíma. Mér tókst að endurreisa líf mitt, nýtt þroskaskeið fór í hönd. Maður situr uppi með skrámur lífsins, en þegar ég sneri aftur frá Vogi og Staðarfelli beið mín enn íbúðin sem ég átti, bíllinn minn, starfið mitt skemmtilega og góðir vinir og fjölskylda. Ég er sumsé dæmi um gaurinn sem fór í meðferð á réttum tíma, áður en ég hafði spilað öllu frá mér. Fyrir það verð ég alltaf þakklátur þótt svo hafi farið um síðir að ég sæi ekki lengur þörf á 100% bindindi, sæi ekki lengur þörf á AA-fundum, kæmist að þeirri niðurstöðu að áfengið hefði ekki verið minn meginvandi heldur hefðu helgarfylleríin verið birtingarmynd innri vanda sem kannski er úr sögunni nú, a.m.k. eins og er. Eftir að regla komst á líf mitt á ný hef ég notið áfengis og jafnan í góðu hófi. Það er samt fremur óvinsælt að koma út úr þessum skáp og vera hvorki né. Stjórnendur umræðunnar vilja annað hvort eða. Að maður sem venslast hefur SÁÁ skuli annað hvort alþurr og í rétta liðinu eða úttaugaður við rennblautar dauðans dyr. En lífið er flóknara en svo að hægt sé að ná utan um það með einum stuttum frasa, fyrir alla. Þetta er útúrdúr.
Meginástæða þess að ég sting niður penna hér er ekki sú að ég hafi sérstaka ánægju af því að rifja upp þann tíma þegar myrkrið var mest í mínu lífi og meira en birtan. Að gefast upp og fara í meðferð er feimnismál í hugum margra, þess vegna er hin umdeilda nafnleyndarregla í öllu batastarfi hér. Ég er ekki þroskaðri en svo að mér finnst enn býsna erfitt að afhjúpa þann veikleika í brjóstinu sem leiddi til þeirrar drastísku ákvörðunar að ég, maður sem hafði vanist þeirri hugsun að vera skapari eigin örlaga, þyrfti að reiða mig á hjálp frá öðrum. En sennilega glíma allir við einhverja drauga. Ef enginn segir frá draugunum sem alltaf má deila um hvort við sjálf erum alfarið ábyrg fyrir eða ekki, bælist samfélagið og springur kannski í loft upp um síðir. Það sem kveikti hugmyndina að þessum skrifum og þeim snúningi sem kemur síðar eru menningarsjokkin í meðferðinni sem fyrr var komið inn á. Sú spurning hvort menningarsjokk í meðferð eigi erindi inn í samtíma pælingar um áleitið þjóðfélagsmál.
Hér gefst ekki tóm fyrir ítarlega samantekt, en ég mun aldrei gleyma þeirri tilfinningu svo eitt dæmi sé nefnt sem fylgdi því að þurfa að ganga um á náttfötum á Vogi allan daginn. Ég mun ekki heldur gleyma þeirri tilfinningu að hafa þurft að deila herbergi á Vogi með tveimur fíklum. Annar var svo veikur fyrstu dagana að ég svaf varla neitt á næturnar. Það var þá nógur tími til að hugsa á meðan.
Síðan lá leiðin á Staðarfell og þar var ekkert elsku mamma. Við vistmennirnir vorum sviptir flestum þeim réttindum sem fylgja daglegu lífi Íslendinga. Þá varð mér ljóst að ég hefði sjálfur komið mér á mjög vondan stað í lífinu. Á botninum fékkst viðspyrna, kraftur til að horfa bæði fram og aftur. Að búa með ókunnugum manni, sem vægast sagt hafði allt aðra lífsgöngu að baki sér en ég, var góð lexía. Líka að þurfa að vakna eldsnemma á morgnana og vera falið að vekja alla hina meðferðarfélagana. Þar á meðal menn sem höfðu orðið mönnum að bana. Stundum vaknaði vistmaður með fortíð ekki við bank á hurð og „Góðan daginn – vakna“ þannig að ég þurfti í biksvartri nóttinni að vaða inn í herbegin, stundum skíthræddur, en allt gekk vel. Sumir menn með myrka fortíð reyndust öðlingar og allt varð þetta brölt til að vinna á fordómum sem ég hafði alið í brjósti mínu gagnvart tilteknum hópum samfélagsins. Þarna inni voru allir jafnir, hvaðan sem þeir komu. Í því fólst dýrmætt uppbrot. Við vorum allir á sama stað.
Að loknum morgunverði þurfti maður að þrífa húsið og þar á meðal klósettin. Svo fóru fram fyrirlestrar og hópstundir. Maður þurfti að læra að faðma aðra karla, það fannst mér djöfullegt en hafði sennilega gott af því! Svo þurfti ég að ganga langar göngur úti í vetrarmyrkrinu sem vomaði yfir Staðarfelli á þessum árstíma, í öllu veðri. Smám saman fann ég eigin varnir brotna í allri þeirri auðmýkt sem maður varð að galdra fram til að komast í gegnum daginn frá morgni til kvölds. Kannski hljóma ég eins og brjálaður repúblíkani núna en ég held að í þessum réttindamissi og öllu því óþægilega sem ég upplifði framan af hafi endurhæfingin skilað hvað mestum árangri.
Þetta rifja ég upp til samanburðar við hlutskipti efnahagsbrotafanganna á Kvíabryggju sem mjög hafa verið í sviðsljósinu undanfarið. Þeir eiga samkvæmt æðsta dómstóli landsins meiri þátt en nokkrir aðrir toppar í að hér hrundi allt sem hrunið gat. Ábyrgð á samfélagslegu þroti er efst á ferilskrá þessara manna. Þá bera þeir í félagi við fleiri ábyrgð á aðstæðum sem knésettu margan einstaklinginn og buguðu.
Mér sýnist sem fátt sé sameiginlegt með afplánun bankamanna á Kvíabryggju og „afplánun“ í meðferð hjá SÁÁ en er þó annar hópurinn flokkaður sem sakamenn en hinn ekki. Bankaburgeisarnir halda ekki bara miklu af fyrri réttindum sínum, þeir hafa ekki bara tölvurnar sínar og símana áfram, ólíkt því sem var hjá okkur á Staðarfelli. Þeir fá líka opinn mæk hjá fjölmiðlum til að rífa kjaft. Þeir eru Talking Heads, gerendur í samfélaginu á afplánunartíma. Þeir fá aðstöðu til að víla og díla með misvel fengnu fé, þeir eru í aðstöðu til að halda áfram hókus pókus í fasteignaviðskiptum. Á þeim er ekki að sjá neina iðrun. Ekki hjá neinum þeirra. Aldrei. Ekki þegar þeir opna munn í fjölmiðlum. Afplánunin virðist því ekki hafa orðið til að opna augu þeirra á ný, hvorki sakfelling né afplánun virðist hafa losað þessa ógæfumenn undan sjálfum sér, þeir virðast ekki hafa upplifað frelsið sem fylgir því að losna úr eigin hlekkjum. Og það er dapurlegt. Bæði fyrir bankamennina sem einstaklinga sem og samfélagið allt.
Ef þið eruð að lesa þetta, þið Ólafur, Hreiðar Már, Ingólfur og Sigurður, ætla ég að gerast svo djarfur að lýsa því yfir að þótt þið kunnið að vera sigri hrósandi yfir ölllum forréttindunum sem ykkur hafa verið úthlutað í afplánuninni, verður það væntanlega hvorki heill ykkar né sálarlífi til góðs ef þið lifið áfram með níðþunga hrokabrynjuna á öxlunum. Ef til vill hefðuð þið haft meira gagn af því að þurfa að kúldrast í litlu herbergi með ókunnugum manni, helst einhverjum sem tapaði aleigunni á glæpum ykkar. Þið hefðuð haft gott af samtali við hinn almenna mann. Þið hefðuð haft gott af því eins og vistmenn á Staðarfelli að fá hvorki að nota síma né tölvu vikum saman. Kannski finnst ykkur frábært að vera nánast með einkaþjálfun í crossfittinu en kannski væri ykkur meira gagn í eigin göngum án hópeflis, án leiðsagnar, göngum út í myrkrið, göngum út í óvissuna líkt og við Staðarfellsmenn gengum forðum. Einir með sjálfum ykkur gætuð þið e.t.v. fengið tækifæri til að horfast í augu við sjálfa ykkkur. Til að geta horfst í augu við íslenskt samfélag þurfið þið e.t.v. fyrst að læra að þekkja ykkar eigin augu, lesa mun sorgar og sigra, skilgreina réttlæti og ranglæti upp á nýtt. Heift hrokans gæti að öðrum kosti tæmt ykkur að innan líkt og þið funduð leið til að tæma bankana að innan – er kannski orðið tímabært, ykkar vegna, að draga einhvern æðri lærdóm af þessu brölti öllu?
Án iðrunar, án vakningar, án nýs upphafs, er ekki líklegt að þið munið höndla hamingjuna á ný.
Kannski nenniði að velta því fyrir ykkur.
Og eitt að lokum: Það er ekki ykkar sök ef kerfið hefur veitt ykkur viðhafnarmeðferð. Þið hefðuð haft gott af því að upplifa það sem við lærðum á Staðarfelli forðum að enginn væri merkilegri en annar, að þegar komið væri að ögurstund og kannski aðeins eitt tækifæri enn í boði, skyldi eitt yfir alla ganga. Ef látið hefur verið að kröfum ykkar um forréttindi hefur kerfið ekki aukið líkur á bata ykkar eftir að afplánun lýkur. Það veltir upp spurningu hvort kerfið hafi lært leiðir til að opna augu fólks í áfengismeðferðum en láti síður að díla við glæpamenn með hvíta flibba. Hvort sem um ræðir afplánun eða meðferð er líklegt að eitthvað þurfi að lappa upp á dómgreind þeirra sem hafa hrakist út í horn. Til þess er kerfið, gildir þá einu hvort þrýstingi er beitt eða ekki. Kerfið verður að standa í lapppirnar. Öllum til heilla.
(Þessi pistill Björns Þorlákssonar birtist fyrst í Kvikunni á hringbraut.is)