Þegar ég eyðilagði pels tengdamömmu

Í kvöld verður skotið upp. Tappar fljúga úr kampavínsflöskum, sigrum verður fagnað, gremja ársins 2015 mun leysast upp með aðstoð sprengiefnis. Þegar litadýrðin fyllir himinhvolfið, hverfa allar áhyggjur og gleðin ein nær völdum.

Eða þannig. Það er jú hugmyndin með þessu flugeldafargani.

En ekki fara allar flugeldasögur vel.

Fyrir löngu, skömmu eftir að mér tókst að krækja í konuna mína og var enn að gera hosur mínar grænar fyrir henni, hafði líkt og sveitamaður til forna m.a. nokkrar áhyggjur af því hvað foreldrum hennar fyndist um mig; ég hafði tekið svolítið upp fyrir mig fannst mér, hafði kynnst eðalkonu úr eðalætt í miðbæ Reykjavíkur, urðu miklir viðburðir á gamlárskvöld.

Búið var að kynna mig fyrir allri ættinni. Margra spurninga hafði verið spurt og óræð augnaráð. Fannst sem það væri ekki að hjálpa mér neitt að vera Mývetningur, stórundarlegur jafnvel!

En svo rann upp gamlárskvöldið góða.

Daginn áður hafði ég unnið flugelda í bridgemóti. Það gladdi tengdapabba að sjá mig koma með fullan poka af bombum þar sem stórfjölskylda konunnar minnar fagnaði áramótum saman í Reykjavík – og svo aulinn ég. Hefð fyrir því að sprengja vel og mikið upp í ættinni.

Þetta hefði getað orðið mjög gott kvöld. En óvanur sem ég var stórum bombum varð mér á að snúa stærstu tertunni öfugt. Kveikti þannig í henni, óafvitandi.

Nokkra metra frá stóð tengdamamma mín verðandi, í dýrum pels. Bros lék um varir. Þessi Mývetningur kannski ekki alslæmur. En þar sem kakan sneri vitlaust urðu nú miklir atburðir.

Skot fóru ekki upp heldur niður. Og krafturinn var svo mikill að tertan kastaðist til við frávarp skotanna, snerist og lagðist út á hlið. Hófst nú skothríð gríðarleg þar sem skotmarkið var tengdamamma. Eitt skotið fór milli fóta hennar, brenndi gat á pelsinn og sveið fætur lítillega.

Skelfingaröskur fylltu nú Reykjavíkina þar sem allra augu voru á mér, ásakandi, eðlilega. Þótt enginn slasaðist alvarlega tók það nokkur ár að ávinna mér virðingu tengdaforeldranna. Ef það hefur þá enn tekist.

En við konan höfum verið gift í meira en 10 ár. Það féll réttu megin þrátt fyrir allt.

Ég óska landsmönnum gleðilegs árs, þakka fyrir samskiptin á árinu sem er að líða og vona að allir fari varlega í kvöld.

(Þessi pistill Björns Þorlákssonar birtist fyrst í Kvikunni á hringbraut.is).