Í nýlegu viðtali við Katrínu Jakobsdóttur forsætisráðherra um stjórnarskrármálin sagði hún um eitthvað á þá leið að ákveðnustu fylgjendur nýrrar stjórnarskrár væru að heimta „allt eða ekkert“. Af samhenginu mátti ráða að hún væri að tala um þá sem vilja að tillögur stjórnlagaráðs og þær efnisgreinar sem settar voru í þjóðaratkvæðagreiðsluna um árið verði grunnur nýrrar stjórnarskrár. Þau vilja „allt eða ekkert,“ sagði forsætisráðherrann.
Gott fólk. Sú vinna sem lá að baki tillögum stjórnlagaráðs á sínum tíma er eitt víðtækasta og vandaðasta samráðsferli sem átt hefur sér stað um pólitískt álitamál. Fyrst með þjóðfundinum í Laugardalshöll, þá með stjórnlagaráði og stjórnlagaþingi, síðan allri vinnunni við að velja efnisgreinar úr tillögunum og leggja þær í þjóðaratkvæði.
Það sem síðan gerðist var að harður minnihlutakjarni íhaldsafla á Alþingi Íslendinga lagðist gegn því að þingið gæti afreitt málið frá sér eftir að það kom þangað til afgreiðslu. Þar náðu íhaldsöflin að læsa saman klónum og beita sínu ísmeygilega minnihlutavaldi til þess að hindra að niðurstaða þjóðaratkvæðagreiðslunnar næði fram að ganga.
Andstæðingar stjórnarskrárinnar vilja nefnilega \"ekkert\" af því sem lagt hefur verið til, síst af öllu nýtt auðlindákvæði sem gæti hamlað gegn ásælni og gróðasókn í náttúruauðlindir okkar. Þess vegna er núna verið að setja af stað nýtt ferli með það að markmiði að ná fram \"málamiðlun\" sem þýðir bara eitt:
Að íhaldsöflin sem alltaf voru á móti munu fá sitt fram og hindra að þjóðarvilji nái fram að ganga.
Þannig er það nú bara. Þannig eru stjórnarhættirnir á Íslandi í dag. Í landinu sem nú er komið á gráan lista vegna aðgerðaleysis gegn peningaþvætti og viðlíka glæpastarfsemi spillingarafla. Þar vilja menn enga nýja stjórnarskrá og allra síst að almenningur geti haft eitthvað um stjórnarhætti og stjórnskipan landsins að segja.