Sóun skattpeninga landsmanna er að verða eins konar þjóðaríþrótt á Íslandi. Dæmin hjá hinu opinbera eru því miður út um allt. Nefna má háskóla landsins sem eru átta talsins. Samkeppni er mikilvæg og þess vegna er heppilegt og brýnt að reka tvo myndarlega háskóla í landinu þó íbúafjöldinn sé innan við 400.000. Í Danmörku er talið að halda þurfi úti einum háskóla á hverja 500.000 íbúa.
Á Íslandi eru nú reknir átta háskólar: Háskóli Íslands, Háskólinn í Reykjavík, Listaháskóli Íslands, Keilir, Háskólinn á Akureyri, Bifröst, Landbúnaðarháskólinn á Hólum og Landbúnaðarháskólinn á Hvanneyri. Allir gegna þeir mikilvægum hlutverkum en það er fásinna að þeir séu hver um sig sjálfstæðar stofnanir, með sjálfstæða yfirstjórn, fjárhag, skrifstofuhald og tölvukerfi svo eitthvað sé nefnt. Átta háskólarektorar eru á Íslandi og annað er eftir því.
Við myndun síðustu ríkisstjórnar var bætt við einum ráðherra sem var vitanlega mikil ofrausn en tilfærslur og hræringar í stjórnarráðinu kosta skattgreiðendur milljarða króna á yfirstandandi kjörtímabili. Stofnað var embætti ráðherra háskólamálefna og vísinda en fram að því hafði þeim málum verið sinnt með ágætum af menntamálaráðherra og menntamálaráðuneytinu. Nú er kjörtímabilið nær hálfnað og enn hafa enga tillögur komið frá umræddum ráðherra um hagræðingu í rekstri háskólanna með sameiningu þeirra sem væri skilvirkasta og eðlilegasta leiðin jafnt til verulegs sparnaðar fyrir skattgreiðendur og til sóknar fyrir háskólasamfélagið á Íslandi. Umræddur ráðherra virðist vera upptekinn við eitthvað annað.
Fyllilega væri rökrétt að Háskóli Íslands ræki Listaháskólann og báða landbúnaðarháskólana sem deildir á sínum vegum, auk þess sem Háskólinn á Akureyri myndi sóma sér vel sem útibú frá HÍ.
Háskólinn í Reykjavík gæti að sama skapi rekið Bifröst og Keili sem deildir á sínum vegum. Með þessu yrðu háskólarnir á Íslandi tveir. Einungis yrðu tveir rektorar háskóla á Íslandi en ekki átta og annað yrði eftir því. Miklir fjármunir gætu með þessu sparast í yfirstjórn, skrifstofurekstri, fjármálaumsýslu og öðru samhliða því að slagkraftur þessara tveggja háskóla yrði meiri og þeir þannig kröftugri og líklegri til enn frekari afreka.
Dvergsamfélagið Ísland þarf alls ekki átta háskóla þegar við blasir að unnt væri að sameina þá með framangreindum hætti, bæði til sparnaðar og eflingar starfsemi.
Ekki er sjáanleg þörf fyrir hið nýja ráðuneyti háskóla- og vísindamála. Nú hefur ráðherra málaflokksins hins vegar tækifæri til að gera gagn. Frumkvæði á þessu sviði verður að koma frá ríkisvaldinu sem borgar brúsann og býr við stöðugan fjárlagahalla vegna útþenslu ríkisbáknsins.
Engin rök hafa verið færð fyrir því að við Íslendingar þurfum 10 háskóla á hverja 500 þúsund íbúa þegar Danir þurfa einn.
- Ólafur Arnarson.