Þannig vinna terroristarnir

Ef vilji dómsmálaráðherra Finnlands verður að veruleika og Finnar ákveða að taka upp dauðarefsingu fyrir hryðjuverkamenn, hafa terroristarnir sjálfir unnið a.m.k. eina orrustu í viðbjóðslegri herferð sinni fyrir verri heimi, eins einkennilega og það kannski kann að hljóma.

Jari Lindström sem kemur úr flokki „Sannra Finna“, öfgaflokks sem hefur sett aðgreiningarstefnu efst á dagskrá, vill að skoðað verði hvort breyta megi finnskum lögum þannig að hægt sé að taka hryðjuverkamenn af lífi.

Að þessi rödd komi frá Norðurlöndum skelfir mann hreinlega. Hvað sem um hinn gamla heim má segja hafa Evrópubúar, einkum í vestari hlutanum, allt frá lokum Seinni heimsstyrjaldar talið sér til tekna að dauðarefsing hafi verið afnumin. Að svara dauða með dauða er skref aftur til Gamla testamentisins.

Allt sem komið hefur frá Bandaríkjunum síðari áratugi og er sagt varða mannréttindi hefur reynst hálfhlægilegt í huga Íslendinga á sama tíma og Bandaríkjamenn taka kerfisbundið fólk af lífi, löglega í hefndar- og refsingarskyni. Ameríkanar drepa miklu oftar svart fólk en hvítt með „löglegum“ hætti. Það sýna ýmis gögn. Gögnin sýna dauðadómsvilja hins harða kerfis. Hann getur farið eftir húðlit.

Það skyldi þó ekki líka vera samasemmerki á milli þess að Sannir Finnar eru með annan húðlit en þeir sem taldir eru bera ábyrgð á hryðjuverkunum í París?

Ekkert í heiminum réttlætir hryðjuverk og það er brýnt  að taka á þeim af festu án þess að kosti okkur frelsið. En ekki verður annað séð en að terroristarnir sjálfir hafi haft sigur í því að gera heiminn ómannlegri og verri ef friðelskandi ríki sækja nú hugmyndir sínar um harðari refsingar aftur í tímann.

Dauðarefsing í Finnlandi var fyrst aflögð árið 1949. Algjört bann við dauðarefsingum var fest í finnsku stjórnarskrána árið 1972. Mannréttindasáttmálar Evrópu banna líka dauðarefsingar. Finnar eru hluti af því samkomulagi.

Nú bíður maður þess milli vonar og ótta að einstaka raddir hér á landi fari að enduróma Jari Lindström. Því miður gæti það orðið. Ekki er langt síðan landsmenn urðu vitni að því að flokkur sem mældist ekki með neitt fylgi fyrir borgarstjórnarkosningar í Reykjavík náði inn tveimur mönnum á síðustu dögunum. Vegna þess að það geta verið atkvæði í óttanum, atkvæði í hörkunni og atkvæði í einangrunarstefnunni.

Aftur á móti er harla lítið \"sannt\" í slíkri stefnu. Fyrr eða síðar mun hún snúast gegn þeim sem aðhyllast hana. Hið mjúka mun sigra hið harða. Hið víða mun sigra hið þrönga. Vitið og mennskan munu á öllum tímum bjarga heiminum. En aðeins með því að gott fólk aðhafist gegn því sem betur má fara...

(Þessi pistill Björns Þorlákssonar birtist fyrst í Kvikunni á hringbraut.is)