„Gæti það hugsanlega verið sýn okkar til framtíðar að nota alþjóðlegan gjaldmiðil í landinu?“
Þessari spurningu varpar Thomas Möller, hagverkfræðingur og sérfræðingur í rekstrarstjórnun, fram í bakþönkum Fréttablaðsins í dag. Þar segir Thomas litla sögu af viðskiptum eins og hann orðar það.
„Fyrir nokkrum árum átti ég fyrirtæki sem flutti inn vörur frá Evrópu og seldi til fyrirtækja á Íslandi. Krónurnar sem komu frá vörusölunni voru notaðar til kaupa á evrum af bönkum til að greiða erlendu birgjunum. Bankarnir tóku þóknun fyrir að selja okkur evrurnar og millifæra þær til útlanda. Gengi krónunnar sveiflaðist mikið á þessum árum eins og hún hefur gert á þessu ári og var gengisáhættan reiknuð inn í söluverð vörunnar til hækkunar.“
Thomas segir að fyrirtækið hafi svo byrjað að selja til útflutningsfyrirtækja á Íslandi. Fyrirtækin vildu greiða fyrir vörurnar í evrum til að spara sér þóknanir bankanna við að skipta þeim í krónur. Þannig eignaðist fyrirtækið hans evrur sem voru lagðar inn á evrureikning þess í bankanum.
„Nú gátum við greitt beint til birgjanna án milligöngu bankans með svipuðum hætti og við værum að greiða fyrir húsaleigu innanlands. Gengissveiflur voru úr sögunni og minni gengisáhætta þýddi að við gátum lækkað verð til kaupenda. Gjaldeyrisþóknanir til bankans lögðust af. Samkeppnisstaða fyrirtækisins batnaði og salan jókst.“
Thomas heldur áfram:
„Hugsum okkur að öll fyrirtæki og fjölskyldur á Íslandi, ekki bara útflutningsfyrirtækin, notuðu evrur í sínum viðskiptum. Gera má ráð fyrir tugmilljarða sparnaði á ári fyrir almenning og fyrirtæki aðeins vegna skiptikostnaðar gjaldeyris auk mismunar á kaup- og sölugengi Gæti það hugsanlega verið sýn okkar til framtíðar að nota alþjóðlegan gjaldmiðil í landinu? Samkeppnisstaða frumkvöðla- og nýsköpunarfyrirtækja myndi batna verulega samkvæmt nýlegri könnun og fjölmörg ný atvinnutækifæri hugsanlega skapast með alþjóðlegum gjaldmiðli.“