Þannig er gott ísland

 

„Sá sem er bitur getur ekki skapað neitt fagurt.“

Einhvern veginn svona voru ummæli evrópsks tónlistarmanns sem hafði lifað af vist í fangabúðum nasista í seinni heimsstyrjöldinni.

Hann miðlaði þessari hugsýn sinni áfram til nemanda síns, Atla Heimis Sveinssonar tónskálds. Atli Heimir bar áfram út boðskapinn og í gegnum nemanda Atla heyrði ég þessi orð fyrst, ekki alls fyrir löngu.

Vísast er hvatinn að þessum viskuorðum sá (án þess að ég gjörþekki tilefnið) að gyðingurinn sem varð síðar tónlistarmaður eftir allan þann hrylling sem hann upplifði í útrýmingarbúðum, hafði áttað sig á að það myndi ekki bara bitna á hæfileikum hans til tónlistarsköpunar, æðsta listformi fegurðar, heldur öllu hans lífi, jafnt samtíð sem framtíð, ef hann liti alla ólifaða daga um öxl og spyrði sig bitur hvers vegna heimurinn hefði orðið að þeim hryllingi sem hann varð þegar sex milljónum gyðinga var útrýmt á fáum árum.

Hætt er við að biturðin renni enn í blóði sumra gyðinga og afkomenda þeirra. Kann jafnvel að skýra einn þátt þeirrar frekju og ofbeldis Ísraelsmanna sem beinist nú gegn Palestínumönnum og öðrum þeim sem vilja að Palestínumenn njóti réttlætis.

Kannski hafði sá sem sagði: „Sá sem er bitur getur ekki skapað neitt fagurt“, misst sjálfur alla ástvini og ættingja í hryllingi Hitlersáranna. En hann hélt áfram. Hann gerði fegurðina að lifibrauði sínu. Að byrja með ekkert nema fortíð fulla af mannhatri er meiri áskorun en við Íslendingar mætum flestir á lífsleiðinni. Blessunarlega. Samt þekki ég fólk sem hefur aldrei komist yfir erfitt augnablik í fortíðinni. Þótt áratugir líði er þetta sama fólk alltaf biturt, lítur aldrei glaðan dag. Kannski er það ekki á færi allra að ráða við áföll gærdagsins en sá sem hefur val ætti að hugleiða að sá sem er bitur skapar aldrei neitt fallegt. Til eru heimspekingar, listamenn og rithöfundar sem ganga svo langt að segja að án fegurðar sé ekki neitt.

Sjálfur finn ég það þegar ég skrifa hvort ég ég er bitur eða ekki. Ég finn það þegar ég sest við hljóðfæri og ég finn það í eigin augum þegar ég hitti fólk, eða á við það samræður. Ef ég er bitur ná hvorki tónar né tal nokkru flugi.  Reitt fólk getur ekki sungið. Á sama tíma liggur fyrir að án réttlætis getum við ekki haldið áfram.

Hrunið var bautasteinn á þeirri vegferð okkar samlandanna. Ef ekki hefði verið gripið til ýmissa ráðstafana til að gera upp fortíðina eftir hrun hefðu fleiri átt í vandræðum með að finna samleið áfram með íslensku samfélagi en raunin varð. Nógu margt gott fólk misstum við burt.

Við sungum kannski ekki marga fallega söngva, dagana sem við vorum reiðust. Gott er að hafa í huga að biturðin var fullkomlega réttmæt. Samt var það takturinn, hljómfallið í slagorðinu Vanhæf ríkisstjórn sem bar uppi byltinguna. Undir var sleginn þungur taktur. Þrátt fyrir allt fagur taktur, byggður á kröfu um réttlæti.

Þannig eru Íslendingar á góðum degi. Þeir átta sig á, jafnvel í miðju beiskjuhafinu, að án fegurðar er ekki neitt. Jafnvel í mótmælum er hægt að skapa og heiðra fegurðina á meðan fljót reiðibylgjunnar rennur til sjávar.

Þannig er Ísland á góðum degi.