Það vantar reglur um farsímanotkun

Hér er nú samanber fyrirsögnina að ofan komið dauðafæri að gefa á sér færi sem hundönugri og gamaldags skotskífu og ég ætla að nýta það!

Ætla nefnilega að rakka niður farsímanotkun undir ákveðnum kringumstæðum, en einhverra hluta vegna hafa ýmsir ósiðir, tengdir þeirri menningarbyltingu sem rekja má til tæknibyltingar, þótt býsna friðhelgir.

Tek sénsinn á að verða kallaður nátttröll, risaeðla allt það, en sumar menningarbreytingar eru einfaldlega þess eðlis að það getur verið rétt að andæfa þeim, ræða þær með gagnrýnum hætti.

Fyrsta menningarsjokkið sem ég upplifði og má rekja til gsm-síma var í brúðkaupi á bóluárum fyrir hrun. Þá tók ég eftir að einn brúðkaupsgesta, yfirmaður eins bankanna sem féll nokkru síðar og togaði okkur öll í átt að svartholinu, var í símanum sínum, ekki bara fyrir athöfn og eftir hana heldur var hann líka að fylgjast með færslum og eiga einhver netviðskipti á þeirri helgu stundu sem brúðhjónin játuðust hvort öðru.

Svo sást hann varla í veislunni á eftir, þessi sjálfskipaði fangi í landi gleðinnar. Leit ekki upp. Leitaði uppi horn og skúmaskot og grúfði sig yfir símann sinn. Meðan kossar flugu manna á millum eins og sólskríkjur.

Þetta var þá en rífum áratug síðar hafa flestir gefist upp fyrir óheftri símanotkun. Sem er merkilegt því manneskjan hefur á 40.000 árum komið sér upp ýmisskonar taumhaldi og reglum hvað varðar framkomu og hætti. Svo eitt dæmi sé tekið var nemendum ekki alls fyrir löngu bannað að japla tyggjó. En nú gerir enginn athugasemd við að bæði börn og fullorðnir hverfi í óminnishafið með sjálfum sér og símanum – hvar sem er.

Ég hef heyrt af hjónum sem fögnuðu brúðkaupsafmæli, fóru út að borða og sátu í þögn milli þess sem þau slöfruðu í sig steikinni og drukku rauðvínið, sátu þögul með símana sína, annað var á facebook en hitt í Bubbles.

Ég hef farið út að borða að kvöldlagi og hver einasti matargestur var í símanum sínum.

Spyrja má hvort ýmis mannamót kalli ekki á nýjar kurteisisvenjur, viðbragð við þróun sem hefur orðið? Ætti sá sem þarf að nota síma  að biðja viðstadda að afsaka sig, falast eftir leyfi til að aftengja sig félagsskapnum? Sýna nærstöddum virðingu með því að senda út þau skilaboð að lifandi fólk, komið saman til að njóta samveru hvers annars, er rafrænum skilaboðum mikilvægara.

Þótt okkur líði eins og allt standi og falli með því að við fáum nýjustu upplýsingar beint í æð eða að leikjaþörf heltaki sálina?

Við foreldrar ættum e.t.v. að reyna að leiðbeina börnunum okkur í þessum efnum. Vera þeim betri fyrirmyndir en við erum.

Maður er manns gaman. Lifandi fólk á að eiga lifandi stundir. Og á öllum tímum ættum við að sýna nærveru þeirra sem okkur þykir vænt um tilhlýðilega virðingu.

Það vantar reglur um farsímanotkun, skráðar eða óskráðar. Umræða er til alls fyrst. Þetta athyglisskrímsli, eins lífsnauðsynlegt og það er okkur og einfaldar lífið og bætir á margan hátt, temur sig ekki sjálft...

(Þessi pistill Björns Þorlákssonar birtist í Kvikunni á hringbraut.is)