Hrunið kenndi Íslendingum margt - og þótt eitthvað af því kunni að vera að gleymast virðast þeir nytjamarkaðir, sem skotið hafa upp kollinum á allra síðustu árum, vera komnir til að vera. Fólk er orðið vant því að kaupa notaðan varning og ófeimnara við að sýna sig í þessum búðum sem iðulega eru sneisafullar af ólíklegasta varningi. Að sögn þeirra sem til þekkja hafa nytjamarkaðir aldrei notið meiri vinsælda á Íslandi og einmitt um þessar mundir. Kolaportið var lengi eitt um þessa hituna, en hefur breyst að vöruframboði á síðustu misserum og lagt meiri áherslu á notaðan fatnað en annað það sem einkenndi portið niðri við höfnina í árdaga þess. Húsbúnaður og húsgögn, á stundum athyglisverð antikvara við litlu verði, er hins vegar meira á boðstólum á öllum þeim nytjamörkuðum sem hafa verið opnaðir út um borg og bí að undanförnu. Þeir telja nú orðið tugi og eru gjarnan reknir af hjálparsamtökum, svo sem Rauða krossinum, ABC eða Samhjálp, þótt raunar beri æ meira á mörkuðum af þessu tagi sem reknir eru af einstaklingum og fjölskyldum. Ekki er einasta gaman að ráfa um þessa markaði og skoða sögu þjóðarinnar sem lesin verður úr hillum og rekkum, heldur er hægt að gera slík kjarakaup á þessum kauptorgum að um munar.
Forláta vatnskanna úr leir, fallega máluð og brennd af bljúgri kúnst, fékkst til dæmis á 50 krónur á einum svona markaði um daginn; sannkallað eldhússtáss.