Það snjóar. Það snjóar núna þar sem ég bý, nokkrum dögum fyrir sumardaginn fyrsta.
Í gærkvöld, í matarboði lásum við nokkur saman, fjölmenningarlegur hópur með ólíkan bakgrunn, veðurspána saman á einhverri netfréttasíðunni. Umræða spannst hvort við værum andlega búin undir þann snjó sem Veðurstofan boðaði.
Í hópnum var kona af erlendu bergi brotin eins og það er kallað en samt alveg stráheil! Kona sem tók þá ákvörðun fullkomlega ótilneydd í fyrra að flytja frá eigin heimalandi til Akureyrar. Hún var okkur \"þessum innfæddu\" sammála um að það væri svolítið erfitt eftir vorfílinginn í vikunni, 15 gráðurnar, lognið, sólina og fuglasönginn, að vakna við hvíta jörð. Og þannig líður mér núna, frekar ankannalega eins og sagt var í sveitinni í gamla daga.
En útlenda konan bætti við: \"Mér finnst Ísland samt alveg ótrúlega spennandi. Hér eru fjórar árstíðir og fjórar þjóðir eftir því hvort það er vor, vetur, sumar eða haust. Orkan er svo mismunandi. Við leggjumst í hálfgert híði yfir vetrartímann en svo fer allt af stað. Þetta er ótrúlega skemmtilegt og lifandi land miðað við t.d. svæðið sem ég bjó á þar sem allir dagar eru veðurfarslega eins. Alltaf.\"
\"Og Ísland er öruggt,\" bætti konan við.
Skemmtilegt, öruggt, lifandi en ófyrirsjáanlegt þegar kemur að veðri.
Hljómar eins og draumaland. Hljómar eins og ævintýraland!
Þökk sé orðum útlendu konunnar ætla ég ekki að láta þennan snjó þarna úti hafa neikvæð áhrif á mig. Ef maður fær ekki annað en sítrónur í fangið er besta hugmyndin að búa bara til límonaði, segir spakmælið.
Þegar snjóar leitar maður að pípuhatti, trefli, gulrót og jákvæðni!
Björn Þorláksson