Óli Björn Kárason gleymdi að minnast á það, í lofræðu sinni um há laun á Íslandi og nær hæstu lægstu laun hér í samanburði við önnur lönd, að Ísland er eitt dýrasta land Evrópu, hér er verðlag hærra en nokkur staðar annarstaðar. Menn eru gleymnir á sumt í landinu okkar góða.
Hann gleymdi líka að minnast á það að örorkulífeyrisþegar hafa sjaldan haft það verra á Íslandinu góða og ríka. Að fátækt og sárafátækt er veruleiki allt of margra örorkulífeyrisþega, vegna þess að stefna stjórnvalda hefur verið og er enn að þrengja meira og meira að því fólki sem þarf að reiða sig á framfærslu frá samtryggingarkerfi okkar allra, TR.
Ég hefði vilja heyra hann og Áslaugu Örnu tala um og segja frá því að ríkisstjórnin ætlaði að snúa frá þeirri vondu stefnu sem hún hefur viðhaldið, snúa frá því að halda hér fötluðu og veiku fólki í heljargreipum fátæktar. Því í hvers þágu er þessi fátæktarstefna? Ekki er hún í þágu barna öryrkja sem búa við sárafátækt, eða fullorðins fólks sem á ekki fyrir mat, lyfjum eða nauðsynjum.
Mér er það óskiljanlegt að sjálfstæðismenn og aðrir stjórnarmenn á þingi kjósi að bera kíkinn að blinda auganu þegar kemur að málefnum fatlaðs fólks, langveikra = öryrkja.
Fjármála- og efnahagsráðherra hefur látið liggja að því að hér muni landsmenn að stórum hluta leggjast í kör og „gerast“ öryrkjar, ef veiku og fötluðu fólki = öryrkjum, verði gert kleift að lifa hér mannsæmandi lífi.
Þetta viðhorf ber ekki vott um traust til landans og er í mínum huga argasti óhróður.
Áslaug Arna talar um að orð skipti máli, í því sambandi vil ég benda á að fjármálaráðherra hefur ítrekað komið upp í pontu alþingis og í besta falli verið mjög villandi þegar hann hefur talað um málefni örorkulífeyrisþega.
Öryrkjar eru jaðarsettur hópur og því miður hafa stjórnvöld nýtt sér það að hljóða út í samfélagið orðræðu sem beinlínis er ætlað til að viðhalda og efla fordóma og andúð í garð fólks (öryrkjum) sem illa getur varið sig.
Mikið væri hressandi að heyra aðra og betri orðræðu gagnvart öryrkjum, mikið væri hressandi og mikil tilbreyting að heyra stjórnvöld segja frá því að óréttlæti og skerðingar gagnvart verst setta fólkinu í samfélaginu verði í alvörunni afnumdar. Mikið væri það rétt og gott ef stjórnvöld bættu hag örorkulífeyrisþega sem beðið hafa eftir því að fá leiðréttingu á sínum kjörum frá því í hruninu, og bíða enn.
Mikið væri gott, að allir finni á eigin skinni að það sé aðeins betra að vera til dag en í gær! Ég veit ekki með ykkur hin en mér finnst stjórnin velja afturhald, fortíðarþrá og framtíðarótta þegar kemur að málefnum örorkulífeyrisþega.
Þuríður Harpa Sigurðardóttir