Það sem fær mig til að gráta

Eitt sem fær mig til að gráta fyrir utan sorglegar kvikmyndir er þegar vinstri menn halda að þeir séu umbótaöflin í samfélaginu. Svo streyma tárin stjórnlaust niður þegar þeir segjast vera frjálslynd að auki. Ég hef farið í ítarlegar rannsóknir og greiningar á þessum nýju umbótaöflum og hér kemur útdráttur úr helstu niðurstöðum:

1) Umbótaöflunum er tíðrætt um mannréttindi. Þó ekki hin raunverulegu mannréttindi eins og frelsi einstaklingsins til orða og athafna og því síður eignarréttindin, sem er forsenda samkeppnishæfs atvinnulífs og framfara. Nei, mannréttindi eru efnahagsleg-og félags réttindi þeirra á kostnað annarra. Tjáningarfrelsið er bara fyrir \"réttar skoðanir\" og frelsi yfir eigin líkama er bara þegar hentar.

2) Almenn vantrú á einstaklingnum einkennir umbótaöflin. Því ber hann enga ábyrgð sjálfur á lífi sínu heldur samfélagið. Ekki má treysta honum fyrri sjálfsaflafé og því þarf að skattleggja hann í drep og úthluta svo eftir þörfum. Ást umbótaflanna á hærri sköttum er svo mikil að þeir trúa að hægt sé að skattleggja burtu hvers konar fíkn. Þegar skattlagning dugar ekki er gripið til banns. Enginn má selja áfengi nema ríkið og aðrir helst ekki reka ljósvakamiðil. Fjárhættuspil mega bara reka útvaldir af ríkinu. Auðvitað þarf að banna allar auglýsingar á svona ósóma. Þegar öll rök þrjóta er alltaf hægt að nota lýðheilsusjónarmiðin. Umbótaöflin hafa ekki áttað sig á að Netið er komið til að vera og bönnin tilgangslaus með öllu og gera ekkert annað en að skaða íslenska fjölmiðla og önnur fyrirtæki.

3) Eitt helsta einkenni umbótaaflanna er sú skoðun að jafnrétti felist í því að allir séu með nokkurn vegin sömu afkomu og að jafnmargir að hvoru kyni séu í hverri starfsstétt. Jafnrétti felist í sömu útkomu en ekki sömu tækifærum. Vinnumarkaður á sem sagt ekki að vera lengur markaður sem menn keppa á. Jafnrétti felst í því að allir séu jafnir fyrir lögum, kæru umbótaöfl en ekki í heimatilbúnum femínisma. Í því felst að hvers konar mismunun er óheimil, hvort sem hún er á grundvelli kyns, kynþáttar eða annars.

4) Umbótaöflin eru talsvert í nöp við þjóðríkið og vilja litlar sem engar takmarkanir á því hverjir geti komið hingað og notið sömu réttinda og íbúarnir. Að því að ég og umbótaöflin erum sammála um mikilvægi alþjóðlegs samstarfs þá tel ég öfugt við þau að forsenda slíks samstarfs sé sjálfstætt og fullvalda þjóðríki.

4) Aðeins eitt kom mér á óvart í þessum faglegu rannsóknum mínum á umbótaöflunum. Nánast undantekningalaust voru þau sammála um að hörmungar, fátækt og kúgun í löndum eins og Venesúela og Kúbu hefði ekkert með hugmyndafræði stjórnvalda þar að gera. Ástæðan væri yfirgangur og græðgi kapitalísku ríkjanna.

Svona eru umbótaöflin í dag. Þetta minnir á gamla tíma þegar kommarnir héldu að þeir væru í frelsisbaráttu. Þeir voru nú aldeilis umbótaafl að eigin mati.