Þó ríkisstjórn Vinstri grænna, Framsóknar og Sjálfstæðisflokks verði væntanlega valdabandalag um kyrrstöðu og sérhagsmunagæslu fyrirtækja í sjávarútvegi og landbúnaði, virðist engu að síður vera að myndun hennar muni leiða af sér sitthvað gott og jákvætt.
Sumt af því jákvæða varðar þjóðarhag til skemmri tíma litið en annað gleður okkur sem erum ekki aðdáendur þeirra flokka sem standa að stjórninni því það samband sem nú er stofnað til er baneitrað fyrir þá sem að því koma. Eituráhrifin koma samt ekki fram í fyrstu.
Hér verða nefnd nokkur dæmi um jákvæða þætti og það sem gleður nú um stundir:
- Myndun ríkisstjórnar eyðir óvissu. Það mun til að byrja með auka bjartsýni fjárfesta og atvinnulífsins og hafa þannig jákvæð áhrif í hagkerfinu.
- Myndun ríkisstjórnar mun hafa jákvæð áhrif á hlutabréfamarkaðinn. Fjárfestar halda yfirleitt að sér höndum þegar pólitísk óvissa er ríkjandi. Um leið og tilkynnt verður um nýja ríkisstjórn í næstu viku má ætla að gengi hlutabréfa fari strax hækkandi.
- Æskilegt er að ríkisstjórnin beri fulla ábyrgð á fjárlögum en afgreiðsla fjárlaga verður eitt fyrst verk nýrrar ríkisstjórnar. Í fyrra voru fjárlög afgreidd í tómarúmi á meðan reynt var að mynda ríkisstjórn. Það var mjög óheppilegt.
- Því er haldið fram að ekki komi til neinna skattabreytinga að sinni. Það er mjög jákvætt ef skatthækkunaráformum Vinstri grænna hefur verið hrundið. Talað er um að skattabreytingar verði gerðar í tengslum við kjarasamninga. Það verður þá varla nema til lækkunar skatta!
- Allir flokkar á Alþingi eru sammála um að verja auknum fjármunum til heilbrigðismála, bótaþega og samgangna. Ríkisstjórnin hlýtur að ákveða viðbótarútgjöld vegna þessara þátta upp á 50 til 70 milljarða króna á næsta ári sem verða ekki fjármögnuð með sköttum. Þetta verður þá væntanlega leyst fyrir árið 2018 með því að auka útgreiðslur úr ríkisbönkunum um svipaða fjárhæð. En það er þó einungis hægt í þetta eina sinn. Veisla í þetta eina sinn. Svo kemur að skuldadögunum þegar koma þarf saman fjárlögum fyrir árið 2019. Þá reynir á og þá gæti ríkisstjórnin sprungið.
- Kjarasamningar stórra stétta eru lausir á næstu mánuðum. Ætla má að Katrín Jakobsdóttir geti haft betri áhrif á launþegahreyfinguna en Panama-Prinsinn úr Garðabæ. Hún er líklegri til að geta haft áhrif til sátta á vinnumarkaði en aðrir flokksformenn. Hún er alþýðukona sem ferðaðist til skamms tíma um á reiðhjóli á meðan formaður Sjálfstæðisflokksins er umdeildur peningamaður og yfirstéttarpitur á Range-Rover. Eins er Sigurður Ingi ekki maður sem virkar vel á almenna launþega; bændahöfðingi af Suðurlandi og formaður í mesta sérhagsmunagæsluflokki Íslands, flokknum sem hefur það sem köllun sína og meginmarkmið að gæta sérhagsmuna sægreifa og bænda gegn hagsmunum neytenda.
- Þá gleður það marga að með stjórnarmyndun þessara þriggja flokka, fær Sigmundur Davíð Gunnlaugsson engin völd þó flokkur hans hafi hlotið dágóða kosningu til Alþingis. Þeir sem unna ekki Framsóknarflokknum sjá einnig sér til ánægju að Miðflokkurinn og Framsóknarflokkurinn munu ekki sameinast á næstunni þar sem annar þeirra verður í ríkisstjórn en hinn í stjórnarandstöðu, væntanlega harðri stjórnarandstöðu. Miðflokksins gætu beðið sömu örlög og Borgaraflokks Alberts Guðmundssonar að verða einnota stjórnmálaflokkur.
- Sama gildir um Sjálfstæðisflokkinn og Viðreisn. Engin hætta er á að þeir flokkar sameinist meðan annar þeirra er í ríkisstjórn og hinn í stjórnarandstöðu. Það er ánægjulegt því það er mikil þörf fyrir hægrisinnaðan, frjálslyndan og framsýnan miðjuflokk eins og Viðreisn er. Flokkurinn mun væntanlega eflast til mikilla muna í stjórnarandstöðunni og ná þeirri stærð sem stofnendur flokksins hafa stefnt að. Þau markmið nást með 15 til 20% fylgi.
- Við sem styðjum ekki þessa þrjá stjórnarflokka nýrrar ríkisstjórnar gerum ráð fyrir því að stjórnarsamstarf þeirra muni hafa þau áhrif í komandi sveitarstjórnarkosningum að þeir muni ekki ná þar góðum árangri. Mikil sóknarfæri opnast fyrir stjórnarandstöðuflokkana í sveitarstjórnarkosningunum, ekki síst í Reykjavík sem vitanlega skiptir langmestu máli.
- Með því að Bjarna Benediktssyni takist að halda Sjálfstæðisflokknum inni í ríkisstjórn þrátt fyrir þá niðurlægingu að tapa 5 þingmönnum í kosningunum og þurfa að sjá á eftir forsætisráðuneytinu, þá gefur það honum engu að síður færi á að stíga niður af stóli formanns Sjálfstæðisflokksins og segja af sér þingmennsku og ráðherradómi í tengslum við landsfund flokksins næsta vor. Það er blátt áfram orðin lífsnauðsyn fyrir flokkinn að Bjarni víki sjálfviljugur og það er einnig brýnt fyrir stjórnmálaástandið í landinu að umræðan fari að snúast um eitthvað annað en vafasama fortíð Bjarna, fjölskyldu hans, Sigmundar Davíðs og annarra sem hafa falið auðæfi sín og feril í skattaskjólum erlendis með þeirri tortryggni og leyndarhyggju sem því fylgir.
- Þá má að lokum geta þess að flestir eru sammála um að Katrín Jakobsdóttir sé ekki einungis vel gefin og glögg ung kona. Hún er stórgáfuð. Ferill henar frá barnæsku sýnir það. Manneskja sem hlýtur 9,7 í meðaleinkunn á stúdentsprófi býr yfir miklum og víðtækum gáfum. Það fer ekki á milli mála. Það er sannarlega mikill léttir fyrir okkkur landsmenn að eignast að nýju gáfaðan forsætisráðherra en þeirrar gæfu höfum við ekki notið frá því Geir Haarde lét af embætti þann 1. febrúar árið 2009.
Rtá.