Það getur enginn unnið dauðastríðið

Sigríður Andersen dómsmálaráðherra hefur valið að heyja pólitískt dauðastríð sitt af fullri hörku í stað þess að viðurkenna staðreyndir, sýna auðmýkt og biðjast lausnar frá embætti.

 

Dómsmálaráðherra sem hefur hlotið dóm í Hæstarétti fyrir að brjóta dómstólalög getur ekki setið áfram í embætti ráðherra. Það er hrein og klár móðgun við Alþingi og þjóðina alla. Hjá öllum þjóðum á Vesturlöndum hefði ekki þurft að dvelja við umræðu um framtíð dómsmálaráðherra sem hlotið hefði dóm æðsta dómstóls þjóðarinnar. Hann hefði vikið samdægurs. Í gömlu Austur-Evrópu og inni í svörtustu Afríku þykir þetta ekki jafn sjálfsagt.

 

Á tyllidögum viljum við bera okkur saman við granna okkar á Norðurlöndum og aðra í Vesturheimi. Við verðum þá að sýna það í verki að við séum hluti af þeirri menningu sem gerir þjóðir að siðuðum ríkjum. Ef við viljum bera okkur saman við þessar þjóðir þá þarf siðferðið einnig að ná til stjórnmálanna. Við getum ekki látið bjóða okkur upp á svör eins og forsætisráðherra bar á borð fyrir þjóðina fyrir skömmu að það hafi ekki verið hluti af stjórnmálamenningu á Íslandi að láta ráðherra axla ábyrgð á misgjörðum sínum.

 

Katrín Jakobsdóttir veit betur. Hún man alveg eftir því þegar ráðherrar þurftu að víkja; Sigmundur Davíð, Hanna Birna, Guðmundur Árni og Albert. Ekkert þeirra hafði þó hlotið dóm eins og Sigríður Andersen hefur. Ekkert þeirra var dæmt síðar. Sigríður hefur verið dæmd í Hæstarétti Íslands en hún er æðsti yfirmaður dómstóla í landinu. Það er skelfileg staðreynd.

 

Katrín Jakobsdóttir getur ekki verið sátt við að hafa dæmdan dómsmálaráðherra í ríkisstjórn sinni. En henni er vandi á höndum og þar kann að liggja skýringin á einkennilegu geðleysi hennar gagnvart þessu vandræðamáli. Svandís Svavarsdóttir (Gestssonar) á einnig sæti í ríkisstjórn Katrínar. Hún hlaut dóma sem umhverfisráðherra á sínum tíma. Bæði í undirrétti og Hæstarétti fyrir valdníðslu gagnvart landeigendum og sveitarfélögum við Þjórsá. Gerðar voru ríkar kröfur um afsögn hennar eftir niðurstöður þessara dómstóla. En Svandís svaraði þá með valdhroka og hortugheitum og sagði að það væri ”pólitískur ágreiningur” milli hennar og dómstólanna. Og það var látið gott heita. Þvílíkur hroki, ráðherra hafinn yfir dómstóla, að mati Svandísar! Jóhanna Sigurðardóttir valdi ekki að krefjast afsagnar Svandísar og ríkisstjórnin virðist hafa stutt það heilshugar. Þar á meðal Katrín Jakobsdóttir sem dvaldi þá í menntamálaráðuneytinu.

 

Katrín á því erfitt um vik. Hún hefur áður tekið þátt í pólitísku siðleysi af því tagi að verja dæmdan ráðherra. Því er ekki von á góðu!

 

Það breytir ekki hinu að ekki er hægt að una við vinnubrögð af þessu tagi. Stjórnarandstaðan má ekki unna sér hvíldar fyrr en hún hefur tryggt brottför Sigríðar Andersen úr embætti dómsmálaráðherra.

 

Loks má spyrja: Hvað er formaður Sjálfstæðisflokksins eiginlega að hugsa?  Að hann skuli ekki grípa inn í og losa Sigríði Anderen úr þessu embætti og setja annan í staðinn sem hefur ekki hlotið dóm. Lærði flokkurinn ekkert af Hönnu Birnu málinu? Vegna þess að hún sýndi enga iðrun heldur einungis valdhroka, þá féll hún og hefur ekki náð að rísa upp síðan. Hanna Birna hafði þó ekki hlotið dóm eins og Sigríður. Og Hanna Birna hefur aldrei hlotið dóm. Samt er hún búin að vera í stjórnmálum. Dettur Bjarna Benediktssyni það virkilega í hug að hann og flokkurinn komist upp með að halda Sigríði við völd, dæmdri, úr því að Hanna Birna þurfti að hrökklast frá án þess að hljóta dóma?

 

Núverandi ríkisstjórn fær falleinkunn hvað varðar siðferði. Skaðinn er skeður en það er unnt að minnka tjónið með því að ljúka þessu sem fyrst með brottför Sigríðar. En það mun dragast.

 

Fyrir andstæðinga Sjálfstæðisflokksins og ríkisstjórnarinnar er þó best að Sigríður Andersen engist sem lengst í pólitísku dauðastríði sínu.

 

Rtá.