Ísland gegn nasisma!
Ávarp á útifundi á Lækjartorgi 7. september 2019.
Ágætu fundargestir.
Fyrir viku síðan, eða þann 1. september s.l., voru 80 ár liðin frá því að seinni heimsstyrjöldin hófst. Um er að ræða mannskæðasta og skelfilegasta stríð mannkynssögunnar en áætlað er að 70 til 85 milljónir einstaklinga hafi farist af völdum stríðsins á árunum 1939 til 1945.
Seinni heimsstyrjaldarinnar verður ávallt einna helst minnst fyrir þau miklu grimmdarverk sem beindust að almennum borgurum. Helförin gegn gyðingum, útrýmingabúðir nasista, þrælkunarbúðir og dauðasveitir sem fóru um Austur-Evrópu og myrtu þjóðfélagshópa sem Þjóðverjar töldu óæskilega eru nokkur dæmi um hörmungarnar sem fylgdu seinni heimsstyrjöldinni, Adolf Hitler og nasistum.
Það fer um mann hrollur við tilhugsunina um að 80 árum eftir að seinni heimsstyrjöldin hófst skuli uppgangur öfgahreyfinga nýnasista, þjóðernissinna, kynþáttahatara og annarra öfgamanna vera eins mikill og raun ber vitni.
Á síðustu árum hefur stjórnmálamönnum og konum, sem og stjórnmálahreyfingum og öðrum félagsskap sem kennir sig við fátt annað en fordóma og hatur í garð minnihlutahópa verið óhræddir við að stíga fram og viðra ógeðfellda hugmyndafræði sína sem felur fátt annað í sér en að þeir sem eru hvítir, kristnir, miðaldra og yfirleitt karlmenn séu yfir aðra hafnir vegna stöðu þeirra í samfélaginu og að þeir eigi einhvern meiri tilvistarrétt en aðrir sem ekki eru eins og þeir.
Þessir stjórnmálamenn og þessar hreyfingar búa yfir svo vondri hugmyndafræði og eiga þar af leiðandi eðlilega erfitt með að réttlæta hana og færa rök fyrir. Þar af leiðandi grípa slíkir einstaklingar yfirleitt til áreitni, ofbeldis, árása og morða til þess að sýna kraft sinn og það sem þeir telja vera einhvers konar yfirburðastöðu sína.
Þessum einstaklingum fer fjölgandi og þessum hreyfingum fjölgar ört. Í Bandaríkjunum, víða í Evrópu, og á Íslandi. Ísland er engin undantekning. Internetið er að drukkna í áreitni og ofbeldi í garð einstaklinga og hópa fólks sem tilheyra minnihlutahópum. Samfélagsmiðlar og kommentakerfi fjölmiðla eru dæmi um það. Fréttum af áreitni og ofbeldi í garð minnihlutahópa hér á landi fer fjölgandi. Börn og ungmenni verða fyrir áreitni og ofbeldi í skólanum, í frístundum, í íþróttum og á netinu. Fullorðnir líka.
Ég varð fyrst vör við nýnasistasamtökin Norðurvígi árið 2016. Meðlimir samtakanna hafa meðal annars dreift áróðri sínum í hús, hengt upp límmiða með hatursáróðri sínum og spreyjað hann á veggi á höfuðborgarsvæðinu og víðar. Þegar fjölmiðlar hafa reynt að ræða við liðsmenn Norðurvígis á síðustu árum hafa þeir ekki viljað opinbera hverjir þeir eru. Það rýmar við önnur nýnasistasamtök og hópa sem voru starfandi fyrir tíma Norðurvígis. Það markaði tímamót þegar þegar lítill hópur nýnasista kom saman á Lækjartorgi í vikunni og dreifði hatursáróðri og ógnaði fólki. Að þessir einstaklingar séu nú tilbúnir til þess að opinbera sig og grípa nú til aðgerða, eins og að koma saman opinberlega og dreifa rusláróðri sínum víða um landið, er til marks um uppgang þessara haturs- og öfgasamtaka og því ber að taka mjög mjög alvarlega.
Norðurvígi eru hluti af hættulegum samtökum nýnasista, rasista og öfgamanna á Norðurlöndum sem meðal annar ala á hatri og ofbeldi í garð hinsegin fólks, múslima, gyðinga, fólks á flótta og þeirra sem ekki eru hvítir á hörund. Meðlimir samtakanna hafa meðal annars verið dæmdir fyrir ofbeldi gegn hinsegin fólki, sprengjuárásir, stunguárás og hatursorðræðu í garð minnihlutahópahópa, td. í Svíþjóð og á Finnlandi, auk þess sem meðlimur samtakanna í Finnlandi myrti einstakling sem setti út á hatursáróður þeirra árið 2016. Samtökin eru nú bönnuð í Finnlandi, sem hefur þó ekki stöðvað starfsemi þeirra.
Það þarf að stöðva uppgang þessara hryllilegu samtaka strax. Áður en það verður of seint. Við berum öll samfélagslega ábyrgð og við verðum öll að leggja okkar af mörkum til þess að koma í veg fyrir að hatur og öfgar festi sig í sessi í íslensku samfélagi.
Við verðum öll að leggja okkar af mörkum til þess að tryggja mannréttindi, frelsi, öryggi og réttlæti fyrir alla og til þess að koma í veg fyrir að hugmyndir um ofbeldi í garð minnihlutahópa, mismunun þeirra og óæðri stöðu verði eitthvað eðlilegar og viðurkenndar.
Íslensku samfélagi stafar ekki ógn af þeim sem samtök eins og Norðurvígi ala á ótta, hatri og ofbeldi gegn. Íslensku samfélagi stafar ekki ógn af fjölbreytileika, fjölmenningu eða fjölbreytni. Íslensku samfélagi stafar hins vegar ógn af ofbeldis- og öfgasamtökum eins og Norðurvígi sem vilja stuðla að sundrung og mismunum í samfélaginu okkar.
Það er hreinlega ekki lengur í boði að taka ekki afstöðu. Það er ekki í boði að gera ekki neitt. Við verðum að sameinast um að senda skýr skilaboð um að það sé ekkert pláss fyrir hatur og öfgar í samfélaginu okkar og að Norðurvígi eigi ekkert erindi hér. Ekkert.