„Það er þoka úti hjá öllum sem reka verslun í dag“, segir Kjartan Örn Sigurðsson, hjá Verslanagreiningu í samtali við Lindu Blöndal í þættinum 21 á Hringbraut í kvöld, þriðjudag.
Hann segir aukna netverslun gríðarlega á Íslandi. Þannig sé það líka annars staðar í heiminum en fyrirtæki hér heima hafi verið misjafnlega undirbúin. Sum upplifi mikla uppsveiflu.
“Ég talaði einmitt við einn í morgun sem er með stóra netverslun og hann sagði mér að á tveimur vikum hefðu þeim fleygt fram um þrjú ár í sínum plönum“.
Um netverslun með matvöru segir Kjartan:
„Þar erum við að sjá fyrirtæki eins og Nettó og Heimkaup vera að vaxa ásmegin, við sjáum nýja leikmenn koma til sögunnar núna eftir að þessi tími skall á, sjá Hagkaup koma aftur, þeir reyndu fyrir sér fyrir mörgum árum síðan og þeir eru aftur komnir inn á markaðinn og við sjáum að Iceland er að bjóða upp á tilbúnar körfur“, segir Kjartan.
„Krónan er með einhverja reynslukeyrslu á netverslun þannig að við ættum almenningur að sjá hana líta dagsins ljós vonandi á allra næstu dögum, þá erum við farin að sjá betur hvernig landslagið liggur“.
Þegar bornir eru saman dagarnir núna miðað við sömu daga í fyrra þá voru sumir seljendur að telja fjögur þúsund hluti út úr netverslunni á dag fyrir ári síðan en komnir yfir tuttugu þúsund hluti nú í dag, segir Kjartan um sumar íslenskar netverslanir en bætir við að íslensk verslun hafi verið aftarlega miðað við önnur lönd í kringum okkur hingað til.
Kauphegðun Íslendinga núna á sér ekki fordæmi segir Kjartan.
„Við erum að kaupa svolítið aðrar vörur og bökunarvörur hafa til dæmis í netverslun með matvöru vaxið mikið. En við erum bara að borða líka meira heima en við gerðum áður, það eru engin mötuneyti, þú ert ekki að borða á veitingastað, þú ert að borða meira heima“.
Miðað við tölur Rannsóknarseturs verslunarinnar er samdrátturinn í veitingasölu gríðarleg, segir Kjartan og hefur salan þar fallið um 1,8 milljarð króna. Heimsendingin á veitingum hefur því ekki verið nægilegur björgunarhringur nema hjá þeim fyrirtækjum sem hafa komið sér vel fyrir á markaði eins og Dominos.
Heimsendingar eru takmarkaðar
„Þegar við erum að tala um heimsendingar með mat þá erum við að tala um Höfuðborgarsvæðið og meira að segja ekki allt það svæði. Eins og til dæmis Aha.is, þeir bjóða ekki upp á allt Höfuðborgarsvæiðið. Álftanes er til dæmis ekki inni á afhendingu hjá þeim“.
Aha er vefur sem er eins og regnhlíf yfir mörg fyrirtæki sem selja allt frá mat og fatnaði til annarrar vöru og nær ekki til landsbyggðarinnar heldur.
„En það sem er svo mikilvægt þegar þú ert að reka fyrirtæki í verslun eða hverju svo sem það er að mælaborðið þitt sé í lagi hvað varðar sjóðsstreymi“.
„Það sem þú þarft að gera sem stjórnandi er að stíga inn og hugsa: Hvað þarf ég að gera í dag til að halda lífi? Þetta er bara skyndihjálp“
Kjartan bætir við að stjórnendur þurfi að skoða mismunandi sviðsmyndir: „Ef þetta tekur mánuð í viðbót, hvað þarf ég að gera? Ef þetta tekur þrjá mánuði, hvað þarf ég þá að gera?“
Fyrir þremur mánuðum hefði engan órað fyrir því að nánast allur flugfloti víða um heim væri kyrrsettur og almenningur settur í sóttkví heima hjá sér, segir Kjartan ennfremur:
„Jafnvel skrýtnustu hugmyndir náðu ekki yfir þetta“.
„Nú er þetta búið að gerast einu sinni og við skulum alveg búast við því að þetta geti gerst aftur. Og það er í raun ekki eðlilegt að í kapítalísku hagkerfi nútímans, þegar við erum að reka fyrirtæki eða verslanir að við séum ekki með neinn slaka, að það þurfi allt að vera á blússandi siglingu, flugvélarnar þurfi allar að vera fullar og á fleygiferð, allt verði að vera á fleygiferð til að allt gangi upp, Núna verðum við að setjast niður og læra“, segir Kjartan og þetta: Nú á bara að hugsa: „Hvað þarf ég að gera bara í dag til að tryggja að ég komist af“.