.Stuðmannalagið “Það er engin leið að hætta” kemur í hugann þegar menn velta því fyrir sér hvort Davíð Oddsson muni láta af starfi ritstjóra Morgunblaðsins þann 17. janúar nk. þegar hann verður sjötugur. Heimildir okkar segja að hann fáist ekki til að hætta þrátt fyrir þá ófrávíkjanlegu reglu sem gilt hefur hjá Árvakri hf. um áratuga skeið að enginn geti starfað þar eftir sjötugt. Davíð spyrnir báðum fótum í dyrastafina og neitar að fara út. Hann bendir á að honum hafi verið hent út úr Seðlabankanum í febrúar 2009 og hann vill ekki trúa því á sægreifana sem eiga nú Morgunblaðið að þeir ætli að koma eins fram við hann og Jóhanna og Steingrímur J. Sigfússon gerðu þá.
Hafa verður í huga að Árvakur hf. nú er ekki það sama og Árvakur hf. var áður. Nú gildir önnur kennitala, annað eignarhald og ríkisbankar hafa afskrifað milljarða af skuldum félagsins. Þegar ritstjórar blaðsins þeir Matthías og Styrmir urðu sjötugir þurftu þeir að hætti þó starfskraftar þeirra væru enn í boði. Sama gilti um forstjórann Harald Sveinsson þó hann væri jafnframt stærsti einstaki hluthafi Árvakurs hf. Hann var neyddur til að láta af störfum gegn vilja sínum. Svo harðir voru menn á þessari reglu.
Mun Davíð fá aðra og mýkri meðferð en þessir lykilmenn sem eiga meiri þátt en aðrir í að gera Morgunblaðið að því stórveldi sem það var.
Í átta ár hefur Davíð gegnt ritstjórastarfi á blaðinu og nýtt það óspart til að reyna að fegra þátt sinn í hruninu. Hann hefur með skipulegum hætti freistað þess að hafa áhrif á ritun samtímasögu þjóðarinnar, ekki síst þann þátt hennar sem snýr að Hruninu og aðdraganda þess. Mörgum hefur blöskrað hvernig hann hefur nýtt svonefnt Reykjavíkurbréf blaðsins um helgar til málflutnings. Enda hefur áskrifendum blaðsins fækkað í ritstjóratíð Davíðs úr 35 þúsund í minna en 20 þúsund með gífurlegum áhrifum á afkomu og fjárhag fyrirtækisins.
Ekki þyrfti að koma á óvart þó eigendur Árvakurs hf. vildu skipta um ritstjóra og fá til starfa einhvern sem gæti laðað lesendur og áskrifendur að blaðinu að nýju. Engin nöfn faglegra fjölmiðlamanna hafa heyrst en eitthvað hefur verið slúðrað um uppgjafa stjórnmálamenn sem hefðu mikinn áhuga á að komast í ritstjórastól Moggans. Dæmi um það eru Eyþór Arnalds, Illugi Gunnarsson, Hanna Birna Kristjánsdóttir og jafnvel fleiri. Enginn þeirra er talinn geta orðið blaðinu til framdráttar. Davíð er þó ritfær, hvað sem öðru líður.
Haustið 2018 eru tíu ár liðin frá Hruninu. Enn er tekist á um orsakir hamfaranna og margar bækur hafa verið ritaðar um atburði þessara örlagaríku tíma. Og ekki má gleyma rannsóknarskýrslu Alþingis um málið en hún er mikil heimild upp á mörg þúsund blaðsíður. Ýmsir vilja líta á Davíð Oddsson sem einn helsta orsakavald hrunsins, m.a. vegna framkomu hans gagnvart Glitni banka á viðkvæmum tíma og þá verður seint sátt um þá ákvörðun hans að ráðstafa öllum gjaldeyrisvarasjóði þjóðarinnar til Kaupþings tveimur sólarhringum áður en bankinn fór á hausinn. Samkvæmt frægu símtali hans við forsætisráðherra gerði Davíð ekki ráð fyrir að fjárhæðin fengist greidd til baka. Þykir þetta vera ein mesta handvömm okkar tíma og bera vott um að Davíð Oddsson hafi engan vegin ráðið við starf seðlabankastjóra.
Á tíu ára afmæli Hrunsins verður margt rifjað upp. Þá vill Davíð vafalaust hafa Morgunblaðið sem vettvang fyrir sína hlið mála og því er engin leið að hætta á sjötugsafmælinu eins og eðlilegt væri. Því er spáð að hann streitist við að sitja á ritstjórastólnum fram yfir tíu ára afmæli Hrunsins.
Rtá.