Það er engin leið að hætta

Ögmundur Jónasson virðist nú sjá einhver ósköp eftir því að hafa hætt á Alþingi og er nú farinn að halda fundi til að miðla fólki af óendanlegir og ómetanlegri visku sinni.

Eins og hann hafi ekki verið búinn að fá nægileg tækifæri til að troða skoðunum sínum upp á þjóðina síðustu 20 til 30 árin; þingmaður og verkalýðsleiðtogi sem hafði bókstaflega skoðanir á öllu og vissi allt best allra.

Þegar fráhvarfið eftir að hafa hætt á þingi tók að þjaka Ögmund, þá skipulagði hann fundi þar sem hann ætlar að halda áfram að messa yfir fólki með sama hætti og áður.

Það er engin leið að hætta, segir í einu af lögum Stuðmanna. En stjórnmálamenn neyðast til að hætta þegar þeir hætta. Annars verða þeir sjálfum sér til minnkunar og þjóðinni til ama.

Ögmundur Jónasson er búinn að segja allt sem hann þarf að koma á framfæri við okkur landsmenn.

Ef hann lætur nú ekki staðar numið, þá fer fyrir honum eins og Jóni Baldvin sem fór að nýju í prófkjör í sínum eigin flokki og hafnaði í næst neðsta sæti. Að ekki sé minnst á afhroð Davíðs Oddssonar í forsetakosningunum.

Þannig fer fyrir þeim sem geta ekki hætt að hafa vit fyrir okkur.

Nóg er nóg.