Það er að vera íslendingur

Ég ræddi við vin minn í morgun hvernig þjóðarsálin kemst í allt annan gír á föstudögum en hina dagana fjóra í hverri vinnuviku.

Það er eðlilegt. Helgarfríin eru fólki sem ekki starfar í vaktavinnu sérstakt gleðiefni. Hjartað slær öðruvísi í okkur á föstudögum en aðra daga. Íslenskir foreldrar geta í lok vinnuvikunnar kastað kveðjum á börnin sín, slegið tölu á afkvæmafjöldann! Bæði börn og fullorðnir eiga oft langa atvinnudaga að baki um helgar, fjarverur við ástvini eru margar að baki og langar þegar stimpil- og skólaklukkur glymja klukkan 15, 16, 17, 18 eða 19 á föstudögum. Í kvöld gefst sérstakt tækifæri fyrir fjölskyldustundir, því Ríkið er ekki einu sinni opið!

Á sama tíma og Íslendingar eru eins og útspýtt hundskinn eftir lengstu vinnuviku velferðarþjóða í heimi (og er þá ótalin öll sú vinna sem þarf að inna að hendi innan oft barnmargra heimila) ræða Svíar í rólegheitum hvort stefna skuli að sex klukkustunda vinnudegi. Erfiðir þessir Svíar. Bætum 10 tímum við þessa sex sem Svíar ætla að vinna fimm daga vikunnar.

Það er að vera Íslendingur!

Íslenskir alkar eiga landið og miðin, gildir einu hvort brennivínsbúðir eru opnar eða lokaðar. Alkóhólismi gegnsýrir mestallt atvinnulífið þótt ölvunin sé fremur andleg en líkamleg. Hjörðin eltir alkana, eins og kindur bónda. Þó er til fólk sem auglýsir eftir umhugsun í stað athafna, vitnar jafnvel til þess að framlegð á hverja vinnustund sé hér á landi með því lélegasta sem þekkist í alþjóðlegum samanburði. En miklu fleiri gorta af hinum séríslenska dugnaði, t.d. í samtölum við erlenda ferðamenn. Dugnaðurinn er einn helsti kostur hinnar samlyndu íslensku þjóðar, segjum við ábúðarfull. Þessi dugnaður varð reyndar til þess að engri þjóð hefur sem Íslendingum á eins skömmum tíma í frjálsu markaðshagkerfi tekist að valda eins miklum fjárhagsskaða í heiminum með aðeins þremur bönkum og var nýbúið að einkavæða þá alla. En þá verður líka að hafa í huga að Íslendingar elska heimsmet. Met sem gengur út á hraða í skaða er betra en að slá ekkert met.

Það er að vera Íslendingur!

You a‘int seen nothing yet, sagði Ólafur Ragnar þegar dansinn stóð sem hæst. Enn þenur hann sig sem aldrei fyrr,  les þjóð sinni pistilinn. Samt vitum við ekkert hvað hann er að segja, vitum ekki einu sinni hvort hann ætlar enn eina ferðina fram. En forsetinn okkar er rosa duglegur. Svo duglegur að hann ætlar aldrei að hætta að vinna.

Sænskar kjötbollur? Sex tíma vinnudagur?

Nei, það er helgi og við skulum bara slaka á fram á mánudagsmorgun. Að svíkja eigið sjálfskaparvíti, að hugleiða flótta frá okurvöxtunum, flótta frá bankaskítafýlunni, flótta frá vetrarmyrkrinu, kuldanum, öllu sem fer í hönd, er ekki íslenskt. Hinn séríslenski dugnaður felst í að þreyja þorrann, gantast með Grímsson, klíkurnar og krónurnar, vera þægur og duglegur en leyfa sér stundum þó að jórtra heimspekilega.

Það er að vera Íslendingur! Og góða helgi...