Ég yrði ánægðari með Ísland ef fjármálaráðherra, Bjarni Ben, hefði raunverulega meint eitthvað með því þegar hann sagði fyrir nokkrum dögum að Sjálfstæðisflokkurinn þyrfti að breytast. Bjarni er formaður Sjálfstæðisflokksins. Á svipuðum tíma og hann sagði að breyta yrði Sjálfstæðisflokknum lýsti Bjarni velþóknun yfir framboði þingmannsins Hönnu Birnu til varaformanns flokksins og nú er hún orðin formaður utanríkismálanefndar. Getur kannski einhver hnippt í Icehot? Hellt kannski yfir hann ísvatni, vakið hann?
Ég yrði ánægðari með Ísland ef hinn höfuðpaurinn í ríkisstjórninni, Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, flytti lögheimilið sitt þangað sem hann býr, frá eyðibýli fyrir austan í Seljahverfið í Reykjavík. Er til of mikils mælst að æðstu ráðamenn þjóðarinnar séu almenningi eitthvað sem kalla mætti siðferðislega áttavita? Eða telja þeir Bjarni og Sigmundur betra að róa á mið siðvilltra kjósenda en heiðarlegra?
Ég yrði ánægðari með Ísland ef fleiri kirkjunnar þjónar hefðu sýnt frumkvæði með því að blanda sér snemma og með leiðbeinandi hætti í umræðuna um sýrlensku flóttamennina. Ef prestar hafa kennivald skiptir máli hvernig þeir bregðast við sárri neyð samborgaranna. Eða boðar nútíma túlkun á kristinni trú kannski að sumir séu jafnari en aðrir? Verður nokkuð lesið upp úr Animal Farm í einstaka prestaköllum áður en yfir lýkur?
Ég yrði ánægðari með Ísland ef fleiri þyrðu að tjá skoðanir sínar hér á landi um samfélagsgerð og stjórnmál. Ólafur Stefánsson handboltamaður (einn af strákunum okkar ennþá, þótt hann spili ekki fótbolta!) lýsti í ræðu á Austurvelli í fyrra þeirri upplifun að flytja aftur til Íslands eftir langt hlé. Hann nefndi m.a. vinnustaðaþögnina alræmdu, óttann sem plagar pöpulinn um að ráðandi öfl kunni að refsa okkur fyrir umdeilanlegar skoðanir okkar ef við látum þær opinberlega í ljósi. Óli Stef sagði við sama tækifæri um ríkisstjórnina vegna hins svokallaða ESB-máls: „Við vitum það öll, að 80% þjóðarinnar eru á móti því sem þeir eru að gera. Þannig að við fáum að sjá það. Þeir eru þarna bara fyrir einhverja sérhagsmunahópa, það er löngu orðið augljóst.“
Ég yrði ánægðari með Ísland ef maður þyrfti ekki raunverulega að burðast með þá óþolandi spurningu í kollinum frá morgni til kvölds hvort Ólafur Stefánsson hafi hitt naglann á höfuðið. Ef við gætum hætt að burðast með slíka spurningu í maganum myndi landið byrja aftur að rísa – og er ekki vanþörf á.
Ég yrði ánægðari með Ísland ef auðmýkt og hógværð hinna harðskeyttu íþróttalandsliða okkar næði að hreiðra um sig á fleiri stöðum í samfélaginu.