Telja að omega-3 hindri geðrof

Nýjar rannsóknir benda til þess að neysla á omega-3 fitusýrum, svo sem í lýsi, geti hindrað geðrof og hægt á þróun geðklofa og annarra geðsjúkdóma. Rannsóknin var gerð við háskólann í Melborune í Ástralíu.

Heilsuvefurinn MedicalXPress greinir frá niðurstöðunum sem þykja merkilegar og sýna enn og aftur fram á mikilvægi þessarar tegundar fitusýru í mannslíkamanum. Rannsóknin sýndi að ungmenni í áhættuhóp á að þróa með sér geðklofa voru mun ólíklegri til að greinast með sjúkdóminn allt að sjö árum eftir að þau höfðu neytt fitusýrunnar reglulega í tólf vikur.

Óttar Guðmundsson, geðlæknir segir í tilefni þessara niðurstaðna við Fréttablaðið í morgun að þær komi sér ekki á óvart: \"Ég er búinn að trúa á undramátt Omega-3 í áratugi,\" segir hann og bætir við: \"Ég trúi því að Omega-3 sé gott við öllu: Geðhvörfum, taugaveiklun, getuleysi, bara hverju sem er. Þess vegna drekk ég eina flösku af lýsi á viku,\" segir hann við blaðið sem fjallar frekar um rannsóknina í dag.