Í gær var greint frá því að íslenska útgáfufyrirtækið Alda Music hefði verið keypt af Universal Music/InGrooves, stærsta tónlistarfyrirtækis heims. Ljóst var að um risastórar fréttir var að ræða fyrir íslenska tónlist og þess vegna skiptar skoðanir á sölunni. Því ákvað útvarpsmaðurinn vinsæli Ólafur Páll Gunnarsson að spyrja marga frægustu tónlistarmenn auk helstu list- og menningarspekinga landsins út í söluna á Facebook-síðu sinni.
„Er þetta gargandi snilld og happadráttur, eða hrikalegur bömmer fyrir íslenskt tónlistarlíf? Ég átta mig ekki á því í augnablikinu – er að reyna að sjá kosti og galla. En hvað segið þið?“ spurði Ólafur og taggaði fjölda fólks.
„Hvað gengur þessari stofnun til?“
Ólafur fékk ansi mörg svör. Blaðamaðurinn Jakob Bjarnar Grétarsson var til að mynda ekki lengi að lyklaborðinu, en hann sagði: „Það er í.þ.m. ekki þannig að um sé að ræða góðgerðarstarfsemi. Starfsemi Gamma var það ekki heldur. Er þetta ekki bara eins og með fiskeldið; stórfyrirtæki að fá eitthvað fyrir frítt? Við eins og indíánar að selja verðmæti okkar fyrir glerhálsfestar?“ sagði hann.
„Í Kastljósi hélt Sölvi Blöndal því fram að eigendur Universal væru akkúrat fólkið til að eiga íslenskar menningargersemar, að þær væru best komnar í þeirra höndum. Það er furðuleg hugmynd, því eigendur Universal eru náttúrlega sama pakkið og á stærstu fyrirtæki í heiminum og fer sínu fram þvert á lög og hagsmuni almennings.“ Þetta sagði Gunnar Smári Egilsson, stofnandi Sósíalistaflokksins um málið. Hann fór yfir sögu nokkurra eigenda Universal Music, sem hann telur ekki fallega: „Samandregið má segja að þetta séu skítseiði allra landa, menn sem eru ekki þekktir fyrir að virða nein verðmæti önnur en það sem rúmast í þeirra eigin veski. Hlægilegt af Ríkisútvarpinu að bjóða upp á einhverja helgimynd af þessari sölu. Hvað gengur þessari stofnun til?“ sagði Gunnar.
Söngkonan ástsæla Ragnheiður Gröndal tjáði sig einnig um málið, en hún virtist ekki sátt með söluna og tjáði þá skoðun sína að 40 til 50 ára gömul tónlist ætti í raun að vera skilgreind sem menningarverðmæti. „Ég er með þyngsli fyrir brjósti yfir þessu. Sorglegast er hvað tónlistarfólkið sem skapar verðmætin á lítinn rétt - enda um að ræða skítasamninga í flestum tilfellum. Öll réttindi eru útgefandans af því hann fjármagnar framleiðsluna í upphafi - þ.m.t. framsalsréttindi - og það þarf ekki að bera neitt undir neinn. Það ætti að skilgreina tónlist eldri en 40-50 ára sem menningarverðmæti og banna með lögum að flytja hana úr landi og ógilda alla þessa samninga!“ sagði Ragnheiður.
Segir hvern og einn bera ábyrgð á eigin samning
Tónlistarmaðurinn Gunni Hilmarsson sagði að í raun væri hver og einn að fá það sem hann hafði samið um. „Þetta minnir mig á gamla góða frasann „Þú færð ekki það sem þú átt skilið, þú færð það sem þú semur um.“ Öll mússik sem er þarna inni er þarna vegna samninga sem voru gerðir á einhverjum tímapunkti. Það var ekkert tekið af neinum. En því miður hafa margir listamenn selt list sína og oft nánast gefið í samningum og gengur hún svo kaupum og sölum.“
Tónlistarmaðurinn Magnús Þór Sigmundsson lagði einnig orð í belg. Hann sagði: „Tónlist er söluvara og hefur gengið kaupum og sölu í allskonar formi og landamæri lítil fyrirstaða bæði til góðs og ills.“
Einar Bárðarson, gjarnan kallaður umboðsmaður Íslands, reyndi að benda á jákvæða fleti í málinu. „En við þetta eru fjöldi jákvæðra flata. Höfundarréttur er ekki að fara neitt. Fyrir þá sem hugsa stærra en Ísland þá eru þetta mjög mikil og jákvæð tíðindi. Listaverkasafnið verður áfram jafn aðgengilegt öllum sem á því hafa áhuga á öllum veitum til leigu og kaups eins og verið hefur.“ sagði hann.
„Skulum leyfa rykinu að setjast“
Listakonan Anna Hildur Hildibrandsdóttir tjáði sig einnig um söluna. Hún sagði að það væri of snemmt að sjá hvaða breytingar þetta myndi hafa. „Það sem mér datt fyrst í hug var að þarna væri Alda Music að styrkja stöðu sína til að eiga auðveldara með að gera alþjóðlega samninga við íslenska listamenn. Það hefur hins vegar sýnt sig á hinum Norðurlöndunum að stærsti hlutinn af listamönnum sem eru á samningi hjá stórfyrirtækjunum á Norðurlöndum eru mjög lókal. Það er of snemmt að segja til um hvort þetta breytir einhverju eða hvaða tækifæri þetta hugsanlega opnar.“
Síðan var það enginn annar en Björgvin Halldórsson sem sagði sína skoðun, en hann tók í sama streng og Anna. Hann sagði að mörgum spurningum væri enn ósvarað, enda fréttirnar nýlegar. Hann lagði þó áherslu á að mikilvægt væri að Íslendingar myndu halda um stjórnartaumana á Öldu. „Við skulum leyfa rykinu að setjast. Það eru margar spurningar og vangaveltur sem eru í gangi sem skiljanlegt er. Mikilvægt er þó að það séu Íslendingar sem stjórna Öldu í framtíðinni sem bera skynbragð á mikilvægi tónlistarmenningu okkar og verkum í gegnum tíðina beiti sér fyrir því að auka verðgildi verka okkar á heimsvísu.“ sagði Björgvin.