Tara Margrét Vilhjálmsdóttir, formaður Samtaka um líkamsvirðingu, kveðst vera glöð yfir því að útvarpsþátturinn Zúúber verði ekki lengur á dagskrá.
Eins og Hringbraut greindi frá í dag tilkynntu þáttastjórnendur nokkuð óvænt að þátturinn yrði ekki framar á dagskrá. Kom ákvörðunin í kjölfar harðrar gagnrýni á einn af stjórnendum þáttarins, útvarpskonuna Siggu Lund, vegna ummæla um tónlistarmanninn Valdimar Guðmundsson sem féllu í síðustu viku.
„Jæja þá eru öll voða sorrí og búið að taka Zúúber úr loftinu eftir Valdimars-fíaskóið. Ég gleðst innilega yfir því enda var bara um eineltisþátt að ræða. Og gott að þau sem urðu fyrir skaða fá réttlæti,“ segir Tara Margrét í pistli á Facebook.
Í pistlinum varpar hún einnig ljósi á samskipti hennar við fjölmiðla og segir farir sínar ekki sléttar. Gagnrýnir hún til dæmis miðla Sýnar og einkum útvarpsmennina Hjörvar Hafliðason og Kjartan Atla Kjartansson fyrir umfjöllun þeirra í Brennslunni á FM957 árið 2017.
Tara segist hafa mætt í viðtal við Brennsluna árið 2016 og allt gengið vel. Þegar hún var spurð í viðtalinu um hennar verstu reynslu minntist hún á bloggfærslu einkaþjálfarans Einars Ísfjörð þar sem Tara var gerð að umfjöllunarefni.
Sumarið 2017 buðu þeir svo Einari í þáttinn til sín, að hennar sögn til að ræða meðal annars um hana, og Hjörvar verið vel meðvitaður um skoðun Einars á henni. Nefnir hún að Einar hafi slaufað viðtalinu með því að skora á hana að hlaupa með sér í Reykjavíkurmaraþoninu. Tara segist engu hafa svarað en þrátt fyrir það hafi Einar sent henni einkaskilaboð á Facebook til að ítreka áskorun sína.
„Í kjölfarið af þessu ákvað ég að senda Hjörvari og Kjartani Atla einkaskilaboð til að sýna þeim hverjum þeir væru að hleypa upp á pall og biðja þá um hleypa honum ekki frekar að til að niðurlægja mig opinberlega. Svörin voru hroki og fyrirlitning eins og sjá má á skjáskotunum af þessum samskiptum,“ segir Tara í færslunni sem má sjá í heild sinni hér að neðan.
Tara endar færsluna sína á þessum orðum:
„Þessi viðbrögð við því sem gerðist á föstudaginn í Zúúber hefur hjálpað mér að sjá að það sem ég hef orðið fyrir er ekki bara eitthvað náttúrulögmál, eitthvað sem er bara í eðli fjölmiðla og lítið hægt að gera við. Það er vel hægt að koma í veg fyrir þetta ofbeldi ef vilji er fyrir hendi. Og ég ætla bara að sleppa þessu lausu útí kosmósið því að skömmin er ekki mín.“
Jæja þá eru öll voða sorrí og búið að taka Zúúber úr loftinu eftir Valdimars-fíaskóið. Ég gleðst innilega yfir því enda...
Posted by Tara Margrét Vilhjálmsdóttir on Þriðjudagur, 16. febrúar 2021