Sagt hefur verið um Stefán Ólafsson prófessor að hann hafi veitt stjórnvöldum meira aðhald en núverandi stjórnarandstaða samanlagt.
Með svipuðum hætti mætti halda fram að Kári Stefánsson sé nú mikilvægari rödd gagnrýninnar umræðu um hrunið heilbrigðiskerfi en allir þingmenn þjóðarinnar samanlagt.
Hluti af minni vinnu felst í að skrifa fréttir fyrir Hringbraut. Ég hef séð á viðtökum lesenda við fréttum og reynslusögum Íslendinga sem við höfum flutt úr heilbrigðiskerfinu að Íslendingum svíður fátt sárar en sú niðurníðsla sem orðið hefur. Hún bitnar líka á þeim sem síst skyldi.
Við sem komin erum á miðjan aldur minnumst þess tíma með eftirsjá þegar öll eða mestöll heilbrigðisþjónusta var ókeypis. Þannig er það reyndar víða enn, sums staðar í kringum okkur, jafnvel er þjónustan ókeypis fyrir útlendinga! Við borguðum skatta þá eins og í dag. En skattarnir fóru áður í innviðina. Vegna skattanna þurftum við ekki að hafa áhyggjur af fjárhagnum ef heilsan bilaði. Nú virðast skattar í auknum mæli nýtast fámennari hópi fólks, elítunni. Þannig fer nú drjúgur hluti af skattfé okkar í afskriftir vegna spilltra auðmanna, kennitöluflakk, að ekki sé talað um 80 milljarða króna skattsvik og hvernig ráðandi pólitíkusar punga endalaust skattfé undir eigin rass. Í gamla daga var Ísland miklu fátækara land en í dag samkvæmt þjóðarframleiðslu og ýmsum hagvísum. Samt sem áður var jöfnuður lykilorðið og nýttist þeim vel sem urðu veikir.
Á níunda áratug síðustu aldar – þegar Davíð, Hannes Hólmsteinn og frjálshyggjufíflin öll fengu að flengríða þjóðarsverðinum fóru sjúklingagjöld í heilbrigðisþjónustu að verða aukið mein. Komugjöld voru fyrst, síðan koll af kolli. Nú er svo komið að það getur kostað fátækan Íslending sem veikist af krabbameini milljónir að hamla gegn sjúkdómi sem dregur hann um síðir til dauða. Þvílík mannvonska – þvílík ómennska! Hringbraut flutti frétt af því fyrir skemmstu að maður sem leitaði lækninga á slysadeild þurfti að borga rúmar 33.000 krónur fyrir eina rannsókn. Við kynntumst einnig máli Fanneyjar Bjarkar Ásbjörnsdóttur, leikskólakennara, sem sagðist í sjónvarpsþættinum Kvikunni vera komin í lífshættu vegna lifrarbólgu sem ríkið bar sjálft ábyrgð á að smita hana af en ríkið reif bara kjaft og lét málið fara fyrir dóm. Það virðist hafa verið hálfgerður grís að Fanneyju og þeim sem hafa búið við sama sjúkdóm skuli bjargað, í þágu erlendrar rannsóknar og hagsmuna lyfjarisa. Við höfum nánast daglega séð fréttir um að sjúklingar hími í geymslum og frammi á göngum spítala. Hvar er hin mannlega reisn íslensks samfélags? Er svo komið að heilsu Íslendinga skuli stéttskipt eftir stöðu og efnahag?
Kári hefur komið auga á að þótt ráðherrar rífi kjaft stendur mestöll þjóðin einhuga bak við þá skoðun að ótækt sé að sjúklingagjöld dekki um 20% alls kostnaðar í heilbrigðisþjónustu. Lyfjakostnaður getur einnig reynst drjúgur. Ef marka má sókn lesenda Hringbrautar í fréttir sem tengjast mölvaðri heilbrigðisþjónustu og ef marka má ummæli almennings við fréttir okkar af slíkum málum er hreinlega runnin upp ögurstund. Kári gerir sér grein fyrir því. Það er þakkar vert.
Hér á eftir fara nokkur dæmi um umsagnir almennra lesenda vegna fréttar Hringbrautar í gær. Í fréttinni var haft eftir Kára að það væri hneisa að jafnvel á slysadeildinni væri greiðslukortið sjúklingi lífsnauðsynlegt. Í umsögnum lesenda okkar við fréttina kom m.a. þetta fram:
„9.500 síðasta heimsókn á Læknavakt + lyf. Er samt á aldraðra afslætti en sýklalyf eru ekki niðurgreidd sem kemur sér illa fyrir lungnasjúklinga. Takk fyrir alþingismenn.“
„Það er eins gott að efnaminna fólk fari ekki að taka upp á þeim ósóma að slasast eða veikjast. Skammalegt kerfi. Eina svarið er að taka upp norræna kerfið sem reyndar var hér áður en það var eyðilagt þar sem þetta var 0 kr eins og er á hinum norðurlöndunum. Þörf ábending hjá Kára.“
„Hvernig væri að tekjutengja íslenska veikindakerfið ? Finna tekjumörk t.d 500.000kr á mánuði á hvern einstakling. Einstaklinga undir því mundu ekki borga neitt enn í staðin hækka komu og rannsóknar á þá sem eru fyrir ofan markið.“
„Komu og rannsóknargjald á Slysa og bráðadeild 24 jan 2016 kr 8700 Já þetta kerfi er til skammar.“
„Ég þarf bara að rétta SOS kortið mitt hér á Marbella og ekkert mál.“
„Betra fyrir ganlingja og öryrkja að veikjast ekki eða slasast.
„Enda er nafnið \"Veikindakerfi\" en ekki heilbrigðiskerfi.“
„Kári er fínn málsvari í þessu máli.“
„Kári er okkar maður, styð hann heilshugar.“
Þetta eru raddir fólksins eins og þær birtast okkar á félagsmiðlinum fésbók.
Það er orðið tímabært fyrir stjórnvöld að hlusta á hvað almenningur hefur að segja. Horfa framan í andlit þjóðarinnar.
Síðasti pistill sem sem ég skrifaði um þessi mál bar yfirskriftina \"Rannsókn og meðferð en bara fyrir ríka\". Þótt sumt hafi verið plástrað frá fyrra ári virðist sú fyrirsögn því miður vera lýsandi fyrir ástandið. Vindum ofan af þeirri óhæfu.
(Þessi pistill Björns Þorlákssonar birtist fyrst í Kvikunni á hringbraut.is)