Skjánotkun barna tekur sinn toll

Kolbrún Baldursdóttir sálfræðingur og formaður Barnaheilla lýsir áhyggjum af öllum þeim tíma sem börn og ungmenni verja framan við skjá. Hún telur að menningar- og tæknibreytingar hafi orðið til þess að talsamband foreldra og barna hafi verið rofið.

Þetta kemur fram í fréttaskýringaþættinum Kvikunni á Hringbraut í kvöld í umsjá Björns Þorlákssonar. Þar verður formaður Barnaheilla í ítarlegu viðtali þar sem geðrænn vandi ungmenna er til umfjöllunar en fimmta hvert barn á landinu glímir við vanda og langur biðlisti hjá BUGL.

Sjálfsvígstilraunir ungmenna, úrræði og úrræðaleysi kerfisins, önnum kafið starfsfólk og stéttskipt þjónusta eftir efnahag fjölskyldna verður rædd. Varðandi ábyrgð foreldra á sálarlífi barna kemur fram vegna ummæla Soffíu Vagnsdóttur, fræðslustjórans á Akureyri á dögununum, að kannski sé rétt að beita foreldra barna sem segjast ekki komast í skólann vegna kvíða dagsektum, að Kolbrún telur að fátt sé verra barni sem ekki vill fara í skólann en að því sé kennt að það sé í lagi að sitja heima. Slík einangrun sé líkleg til að auka vandann.

„Barnið þarf að læra að taka ábyrgð,“ segir Kolbrún.

Kvikan verður sýnd klukkan 21.30 í kvöld á Hringbraut.