Málflutningur Þorsteins Sæmundssonar, Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar og Frosta Sigurjónssonar núna gegn þriðja orkupakkanum sýnir ekki annað en pólitíska tækifærismennsku þeirra. Þetta segir Björn Bjarnason á heimasíðu sinni Bjorn.is. Hann heldur áfram:
Á dögunum sat Þorsteinn Sæmundsson, þingmaður Miðflokksins, í Kastljósi sjónvarpsins og deildi við Guðlaug Þór Þórðarson utanríkisráðherra um innleiðingu þriðja orkupakkans. Mátti ætla að hér færi allt á verri veg, stjórnarskráin yrði brotin og fullveldið vanvirt yrði eitthvað samþykkt af þessum voðatexta sem ætti uppruna sinn innan ESB. Þessi sami Þorsteinn sat í atvinnuveganefnd alþingis 18. febrúar 2015 og skrifaði þar undir álit meirihluta nefndarinnar þar sem sagði:
„Með frumvarpinu er lagt til að 22. gr. tilskipunar Evrópuþingsins og ráðsins 2009/72/EB um sameiginlegar reglur fyrir innri markað raforku [þriðji orkupakkinn] verði innleidd hér á landi. Í tilskipuninni eru sameiginlegar reglur um framleiðslu, flutning, dreifingu og afhendingu rafmagns og ákvæði um neytendavernd. Markmið tilskipunarinnar er að bæta og samþætta samkeppnishæfa raforkumarkaði innan bandalagsins. Hún hefur ekki enn verið tekin upp í samninginn um Evrópska efnahagssvæðið en talið er rétt að innleiða þennan hluta hennar, þ.e. 22. gr., þar sem mælt er fyrir um kerfisáætlun flutningsfyrirtækis.“
Það var vefsíðan Stundin sem vakti máls á því í dag (18. apríl) að Þorsteinn og einnig Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, þáv. forsætisráðherra Framsóknarflokksins, og Frosti Sigurjónsson, þáv. þingmaður Framsóknarflokksins, hefðu staðið að því að samþykkja þennan hluta þriðja orkupakkans í lög á Íslandi. Nú láta þeir allir eins og jaðri við landráð að innleiða þann kafla þriðja orkupakkans sem snertir aukið sjálfstæði Orkustofnunar til neytendaverndar.
Staða og sjálfstæði Orkustofnunar var einmitt til umræðu í þingnefndinni á þessum tíma eins og þessi texti í minnihlutaáliti Lilju Rafneyjar Magnúsdóttur, þingmanns VG, frá 23. febrúar 2015 sýnir:
„Minni hlutinn óttast að umhverfissjónarmið verði fyrir borð borin ef aðeins Orkustofnun kemur að því að staðfesta kerfisáætlun. [...] Minni hlutinn telur það ekki í samræmi við þriðju raforkutilskipun Evrópusambandsins að Orkustofnun hafi eftirlit með framkvæmd kerfisáætlunar enda er þar gerð krafa um sjálfstæðan og óháðan eftirlitsaðila. Minni hlutinn telur afar brýnt að kerfisáætlun lúti faglegu, ströngu og óháðu eftirliti.“
Málflutningur Þorsteins Sæmundssonar, Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar og Frosta Sigurjónssonar núna gegn þriðja orkupakkanum sýnir ekki annað en pólitíska tækifærismennsku þeirra. Frosti segist ekki vera í Miðflokknum en í þessu máli stillir hann sér upp við hlið flokksmanna þar gegn Framsóknarflokknum. Sama gerir Guðni Ágústsson, fyrrv. formaður Framsóknarflokksins, og sýnir þar með ótrúlegt ístöðuleysi gagnvart miðflokksmönnum.
Þá leyfir Frosti Sigurjónsson sér að rökstyðja stuðning sinn við flýtifrumvarpið um gildistöku ákvæða þriðja orkupakkans með því að hann hafi verið að stuðla að umhverfis- og náttúruvernd! Vorkunnsemi kemur helst í hugann þegar litið er til þess fólks sem lætur þessa menn leiða sig.