Ísland: taumhald á skepnum

Ég kaupi stundum kók í bauk eins og sumir kalla áldósir hér fyrir norðan.

Og nota álpappír, álskóflu og það allt. Mikil blessun.

En ég bý á Íslandi þar sem álbræðsla er eitt umdeildasta mál samtímans.  Mengandi stóriðnaður fer illa með annarri starfsemi hér á landi og ógnar okkar náttúruorðspori sem og andlegum og veraldlegum tækifærum.

Sagt hefur verið að Íslendingar hafi verið nokkuð lunknir við að hella sér af of miklum krafti í sömu atvinnugeirana um leið og einn fékk hugmynd. Sumt hefur gengið vel en annað orðið til þess að verkefni og vinnustaðir hafa hrunið eins og spilaborgir, jafnan fjöldagjaldþrot í kjölfarið. Oft hafa engar eignir fundist upp í skuldir við þessi gjaldþrot aðrar en systurnar Vitleysa og Skammsýni sem einmitt hafa dansað hvað hraðast þegar tekin hafa verið stærstu skrefin í orkufrekum iðnaði hér á landi. Þær systur hafa setið um Alþingi, verið vinsælustu stelpurnar á skólaballinu lengi. Þeim fylgir mikið helgarstuð, a.m.k. á köflum, en það er eins og að gleymst hafi að segja þeim sem dýrka þessar systur að djamm með þeim getur kallað á umfangsmikla timburmenn.

Örfá dæmi um atvinnuæði sem hefur runnið á landsmenn eru kræklingur, ígulker, laxeldi, minkar, refir, ótal æði sem ekki þarf að telja upp. Öll eiga æðin það sameiginlegt að þau áttu að bjarga íslenskum þjóðarhag. En urðu að andstöðu þess.

Í raun höfum við lengst af ekki haft hugmyndaflug í annað en gamalgróið stöff, t.d. sauðkindina, sem þó hefur aldrei verið rekstrarlega sjálfbær nema fyrir nokkra höfðingja. Þorskarnir urðu svo okkar gull og eru sumpart enn, svo fremi sem þeir svamli ekki um í ráðuneytum. En ferðaþjónustan er mesta lífsbjörg samtímans og skarast á við stóriðnað. Þá er ónefndur tæknigeirinn og skapandi greinar. Á síðastnefnda sviðinu erum við kannski alsterkust en einhverra hluta vegna hafa stjórnöld fremur reynt að traðka á sköpuninni en efla hana. Það er líka minna vesen að beisla okkur borgarana inni í álbræðslum eða áburðarverksmiðjum fremur en að leyfa okkur að hlaupa um frjálsum. Og þar komum við enn og og aftur að fylkingum og heildum. Stærsta fylking Íslands vill hafa mikið taumhald á þeirri skepnu sem íslenska þjóðin er. Eitt því til staðfestingar er að hjörðin á ekki að fá að kjósa sjálf um ESB. Þar skulu höfðingjarnir hafa vit fyrir sauðunum.

Og nú hyllir undir að enn eitt ígulkerið, enn eitt refabúið riði til falls. Þótt sérhver landsmaður hljóti að óska íslensku atvinnulífi alls hins besta verður að segjast eins og er að það þarf ekki að koma neinum á óvart ef ein þurftafrekasta stoð atvinnulífsins sé að hrynja framan við augun okkur eins og spilaborg - eða ætti maður fremur að segja - eins og stæða af kókdósum?

Álæðið verður sennilega einn dýrasti minnisvarði óábyrgrar stefnu og gamaldags hyggju ósnoturra stjórnmálamanna sem færðar munu verða í annála síðar. Eins og horfir nú er búið að afhenda korporismanum ægivald þar sem jafnvel verkfallsréttur íslenskra álþræla fer fyrir ekki neitt. Svona þess utan að það að setja öll eggin í sömu körfuna þykir ekki gáfulegt. Þess vegna er um það málsháttur. Því sá sem heldur á körfunni getur hnotið hvenær sem er. Þá brotna eggin, þá hrynja spilaborgirnar og áldósirnar og eftir mun sitja hnípin þjóð í norðri, með þá áleitnu spurningu í höfðinu: Hvers vegna kusum við svo lengi að dansa með þeim systrum?

(Þessi pistill Björns Þorlákssonar birtist fyrst í Kvikunni á hringbraut.is)